„Fágætt tækifæri“ til að koma á friði

Trump og Netanyahu ræðast við á Ben Gurion-alþjóðaflugvellinum.
Trump og Netanyahu ræðast við á Ben Gurion-alþjóðaflugvellinum. AFP

Gríðarleg öryggisgæsla er í Tel Aviv en Donald Trump Bandaríkjaforseti kom til borgarinnar fyrir stundu. Sagði hann „fágætt tækifæri“ uppi til að koma á stöðugleika á svæðinu en forsetinn flaug frá Sádi-Arabíu, þar sem hann hvatti íslamska leiðtoga til að taka á öfgahyggju.

Um 10.000 lögreglumenn hafa verið kallaðir til vegna heimsóknar forsetans og er Gamla borgin í Jerúsalem sögð „harðlæst“ en Trump mun heimsækja hana síðar í dag.

Forsætisráðherrann Benjamin Netanyahu var meðal þeirra embættismanna sem tóku á móti Trump. Við komuna sagðist Bandaríkjaforseti vera kominn til hins „helga og forna lands“ til að „treysta órjúfanleg tengsl“ Bandaríkjanna og Ísrael.

„Fyrir okkur liggur fágætt tækifæri til að koma á öryggi og stöðugleika og friði á svæðinu og fyrir fólkið; sigrast á hryðjuverkum og skapa framtíð samlyndis, hagsældar og friðar. En það getum við aðeins með því að vinna saman. Það er engin önnur leið,“ sagði Trump.

Áður en Trump og Netanyahu funda mun sá fyrrnefndi heimsækja Grafarkirkjuna, þar sem kristnir menn trúa að Jesú hafi verið krossfestur, grafinn og risið upp frá dauðum. Þá mun hann einnig heimsækja Grátmúrinn, fyrstur sitjandi Bandaríkjaforseta.

Ákvörðun Trump að sækja hinn svokallaða Vesturvegg heim er afar umdeild en bandarískir embættismenn hafa neitað að svara því hvort þeir telja vegginn tilheyra Ísrael.

„Jerúsalem var og mun alltaf verða höfuðborg Ísrael,“ sagði Netanyahu í gær og ítrekaði að Vestuveggurinn myndi alltaf tilheyra Ísraelum.

Staða Jerúsalem er ákaflega viðkvæmt mál og hefur verið eitt helsta bitbeinið í erjum Ísraela og Palestínumanna. Ísrael hernam austurhluta borgarinnar og Vesturbakkann árið 1967 en aðgerðin hefur aldrei verið viðurkennd af alþjóðasamfélaginu.

Seinna meir innlimuðu Ísraelsmenn austurhluta Jerúsalem og kalla borgina höfuðborg sína. Palestínumenn segja austurhlutann hins vegar höfuðborg Palestínu.

Afstaða Trump óskýr

Í aðdraganda heimsóknar Trump samþykkti öryggisráðuneyti Ísrael aðgerðir hagfelldar Palestínumönnum, m.a. byggingarheimildir á svæðum á Vesturbakkanum sem eru undir stjórn Ísraela.

Á morgun mun forsetinn funda með Mahmud Abbas, forseta Palestínu, í Betlehem, heimsækja Yad Vashem-minnisvarðan í Jerúsalem og flytja ræðu í Ísraelsafninu.

Trump hefur sagt að hann hyggist nýta samningagáfur sínar til að koma á friði milli Ísraela og Palestínumanna. „Það er eitthvað sem ég held í hreinskilni að sé ekki jafnerfitt og menn hafa haldið gegnum árin,“ sagði hann eftir fund sinn með Abbas í Washington fyrr í þessum mánuði.

Trump hefur bæði sagst myndu styðja eins-ríkis lausn ef það leiddi til friðar og á sama tíma hvatt Ísraelsmenn til að láta af uppbyggingu á landtökusvæðum á Vesturbakkanum. Þá lagði hann til í kosningabaráttunni að flytja bandaríska sendiráðið frá Tel Aviv til Jerúsalem.

Bandaríski þjóðsöngurinn var spilaður á vellinum.
Bandaríski þjóðsöngurinn var spilaður á vellinum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert