Sæljón dró stúlku í vatn

Í myndbandinu má sjá sæljónið draga stúlkuna niður í vatnið.
Í myndbandinu má sjá sæljónið draga stúlkuna niður í vatnið. Skjáskot

Myndband sem sýnir sæljón draga unga stúlku ofan í vatn við Steveston í Kanada hefur farið eins og eldur í sinu um netheima síðastliðinn sólarhring. Stúlkan hlaut ekki mein af en foreldrum hennar er nú kennt um að hafa ekki sýnt nægilega varkárni.

Í myndbandinu má sjá þegar sæljónið stekkur upp úr vatninu og bítur í kjól hennar með þeim afleiðingum að hún dregst skyndilega niður í vatnið. Maður sem stendur á bryggjunni stekkur á eftir stúlkunni og komast þau bæði óhult upp á bryggjuna. Áður höfðu viðstaddir kastað brauðmolum að sæljóninu.

„Algjör heimska af hálfu fullorðna fólksins“

Myndbandið hefur fengið um 12 milljón áhorf á YouTube síðan það var sett inn og fjallað hefur verið mikið um málið í fjölmiðlum vestanhafs. Þar hefur foreldrum stúlkunnar verið kennt um að hafa ekki sýnt nægilega varkárni með því að leyfa henni að setjast á bryggjuna. Sæljón sem lifi villt séu ekki þjálfuð til að sýna listir sínar og fara verði varlega í návist þeirra.

Robert Kiesman, sem sér um höfnina í Steveston, varar fólk nú við því að gefa sæljónum. „Þetta er algjör heimska af hálfu fullorðna fólksins,“ sagði hann í samtali við Today í dag. „Ekki aðeins leyfðu foreldrarnir henni að gefa sæljóninu mat heldur leyfðu þeir henni einnig að setjast á bryggjuna með kjólinn hangandi niður.“

Sagði hann það sambærilegt og að labba inn í skóg og rétta skógarbirni samloku. „Þetta er bara eitthvað sem maður gerir ekki.“

Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert