Sprenging í Manchester

Frá vettvangi fyrir utan Manchester Arena í kvöld.
Frá vettvangi fyrir utan Manchester Arena í kvöld. AFP

Breskir fjölmiðlar greina frá því að sprenging hafi orðið á leikvangi í borginni Manchester í Bretlandi í kvöld. Mörg vitni segjast hafa heyrt háværan hvell en fjöldi manns var á leikvanginum þar sem tónleikar fóru fram. Fólk hafi flúið í ofboði í kjölfarið.

Lögreglan í Manchester hefur staðfest að 19 hafi látist og um 50 orðið fyrir meiðslum. Málið er rannsakað sem hryjuverk að sögn lögreglunnar þar til annað kemur í ljós.

Uppfært 01:22: Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að hugur hennar sé hjá ástvinum þeirra sem hafi látið lífið eða orðið á annan hátt fyrir barðinu á því „sem er meðhöndlað af lögreglunni sem ógeðfellt hryðjuverk.“ Fleiri breskir stjórnmálaleiðtogar hafa talað á sömu nótum. Talið er hugsanlegt að frekari kosningabaráttu vegna þingkosninganna 8. júní verði hætt vegna atburðarins í kvöld.

Uppfært 00:58: Mikill fjöldi fólks hefur boðið fram aðstoð sína á samfélagsmiðlum. Meðal annars til að hýsa fólk. Fólk er einnig að nota samfélagsmiðla til að lýsa eftir ástvinum sem það hefur ekki heyrt frá.

Uppfært 00:52: Lögreglan taldi hugsanlegt að ósprungin sprengja hefði fundist á svæðinu og var hún sprengd í kjölfarið á öruggu svæði. Hins vegar reyndist aðeins um að ræða fatnað.

Uppfært 00:24: Manchester Arena-höllin tekur um 21 þúsund gesti og samkvæmt Sky News var leikvangurinn troðfullur af fólki á tónleikum Ari­ana Grande í kvöld.

Uppfært 00:13: Lögreglan í Manchester segir staðfest að 19 hafi látist og um 50 orðið fyrir meiðslum. Málið er rannsakað sem hryðjuverk þar til annað kemur í ljós segir í tilkynningu.

Uppfært 23:57: Fram kemur á fréttavef Daily Telegraph að lögregla telji hugsanlegt að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Það er þó óstaðfest.

Uppfært 23:55: Óstaðfestar fregnir herma að lögreglan hafi handtekið karlmann í tengslum við sprenginguna.

Uppfært 23:47: Lögreglan í Manchester ítrekar þau tilmæli að fólk haldi sig frá staðnum þar sem sprengingin varð. Viðbragðsaðilar séu að störfum þar. Ekki hafa enn borist nánari upplýsingar frá lögreglunni um fjölda látinna eða hvað hafi valdið sprengingunni.

Uppfært 23:23: Utanríkisráðuneytið hefur ekki fengið neinar tilkynningar um að Íslendingar hafi verið á meðal þeirra sem létust eða hlutu meiðsl. Þeir Íslendingar sem voru á tónleikunum eru hvattir til þess að láta ættingja vita af sér.

Uppfært 23:10: Vitni segja við breska fjölmiðla að hugsanlegt sé að fólk hafi hlotið meiðsli sín þegar það reyndi að yfirgefa svæðið í ofboði ásamt öllum öðrum. Breska ríkisútvarpið ræðir við sjónarvottinn Josh Elliot sem segist telja hugsanlegt að blöðrur hafi sprungið. Enn er ekki staðfest hvað olli hvellunum sem fólk heyrði.

Uppfært: 23:00: Tónleikarnir voru með bandarísku söngkonunni Ariana Grande. Talsmaður hennar segir hana heila á húfi.

Uppfært: 22:53: Lögreglan greinir frá því að verið sé að bregðast við tilkynningum um sprengingu á svæðinu. Staðfest sé að nokkrir hafi látið lífið og aðrir orðið fyrir meiðslum. Greint verði nánar frá manntjón strax og það verði hægt.

Fréttin verður uppfærð

 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert