15 ára ákærður fyrir morðtilraun í Malmö

AFP

Fimmtán ára piltur hefur verið ákærður fyrir morðtilraun í miðborg Malmö í febrúar. Pilturinn skaut húsvörð sem var að hreinsa snjó á gangstétt við Roskildegatan margsinnis í höfuðið og bak snemma morguns. Maðurinn hlaut lífshættulega áverka í árásinni.

Drengurinn var handtekinn síðar þennan sama dag en hann hefur alltaf neitað því að hafa skotið manninn.

Lífsýni fundust á höndum piltsins og fatnaði sem benda til aðildar hans að árásinni. Að sögn lækna þjáist drengurinn af geðröskunum.

Vopnið sem var notað í árásinni hefur ekki fundist þrátt fyrir mikla leit í nágrenni Roskildegötu. Var jafnvel tjörn í nágrenninu slægð án árangurs. Nokkur vitni voru að árásinni og segja þau að drengurinn hafi verið einn að verki.

Að sögn saksóknara er ekki vitað hvers vegna drengurinn skaut manninn en verjandi hans gagnrýnir ákæruvaldið harðlega fyrir að hafa haldið honum í gæsluvarðhaldi frá því í febrúar. Slíkt eigi að vera óhugsandi í Svíþjóð og finna hafi átt aðrar lausnir í málinu.

Réttarhöldin hefjast 29. maí og er talið að þau standi í þrjá eða fjóra daga. Þar sem pilturinn er orðinn 15 ára er hann sakhæfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert