Rannsakað sem hryðjuverk

Frá vettvangi í Manchester.
Frá vettvangi í Manchester. AFP

Breska lögreglan hefur staðfest að 19 hafi látist í sprengingu sem varð á tónleikum Ariana Grande í Manchester í Bretlandi. Málið er rannsakað sem hryðjuverk þar til annað kemur í ljós samkvæmt tilkynningu. Talið er að sprengingin hafi orðið við anddyri staðarins.

Fréttastofa bresku sjónvarpsstöðvarinnar Sky News hefur eftir blaðamanni sínum að samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsum á svæðinu sé verið að meðhöndla nokkra einstaklinga sem talið sé að hafi meiðsl sem rekja megi til sprengjubrota.

Lögreglan hefur ekki staðfest þær fréttir. Tónleikastaðurinn tekur 21 þúsund manns í sæti og mun hann hafa verið þéttsetinn á tónleikunum samkvæmt breskum fjölmiðlum. Þegar sprengingin varð reyndi fólk í ofboði að komast burt og er talið að einhverjir hafi slasast við það.

Uppfært 12:35: Svo virðist sem önnur sprengja hafi fundist rétt hjá Manchester Arena í Cathedral Gardens. Lögreglan í Manchester hefur varað við því að fljótlega verði önnur sprengja sprengd, í þetta skipti sjái lögreglan um það. Biður hún almenning um að hafa ekki áhyggjur af þeirri sprengingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert