„Það eru allir harmi slegnir“

Gestir og starfsfólk Arndale-verslunarmiðstöðvarinnar faðma hvert annað eftir að verslunarmiðstöðin …
Gestir og starfsfólk Arndale-verslunarmiðstöðvarinnar faðma hvert annað eftir að verslunarmiðstöðin var rýmd í morgun. Maður var handtekinn þar, en ekki er talið að hann tengist sjálfsvígsárásinni í gær. AFP

Hulda Þórsdóttir Simire var stödd í nágrenni Arndale-verslunarmiðstöðvarinnar í miðborg Manchester þegar hún var rýmd nú í morgun. „Við vorum í atvinnuviðtali í húsi beint á móti verslunarmiðstöðinni þegar það var komið inn og okkur sagt að yfirgefa bygginguna, það væri verið að hálfloka bænum,“ segir Hulda sem er búsett í Manchester.

Breskir fjölmiðlar greindu frá því morgun að Arndale-versl­un­ar­miðstöðin, sem er í miðborg Manchester líkt og Manchester Arena-tónleikahöllin þar sem 22 létust í sjálfsvígsárás í gærkvöldi, hefði verið rýmd nú í morgun. Hafði Reu­ters-frétta­stof­an eft­ir vitn­um að þau hafi heyrt „háan hvell“ og að hópar fólks hefðu hlaupið á brott frá versl­un­ar­miðstöðinni.

„Fólk kem­ur út hlaup­andi og helst í hend­ur,“ hef­ur Reu­ters eft­ir ljós­mynd­ara á vett­vangi.

Allir að velta fyrir sér hvað hafi gerst

Hulda segir þau hafa farið út líkt og óskað var eftir og séð þá að verið var að rýma byggingar allt um kring. „Það löbbuðu allir í hringi, klóruðu sér í hausnum og voru að spyrja hvað væri að gerast. Það var ringulreið og allt stopp alls staðar,“ segir hún. Fólk hafi ekki endilega verið hrætt, en það hafi óneitanlega allir verið að velta fyrir sér hvað væri að gerast.

Lögregluyfirvöld í Manchester greindu frá því í  morgun að maður hefði verið handtekinn í Arndale-verslunarmiðstöðinni, en ekki væri talið að svo stöddu að hann tengdist árásinni í gær. Þau hafa einnig staðfest að tveir hafi verið handteknir í suðurhluta Manchester í rannsókn tengdri árás gærdagsins.

„Það fyrsta sem ég sagði við manninn minn var förum bara.  Hann spurði þá hvert og ég sagði löbbum út úr bænum og þaðan bara eitthvað,“ segir Hulda. Þau gengu því næst út úr bænum þar til þau komu að strætisvagnastöð þar sem þau gátu tekið vagn sem ekur hringinn í kringum bæinn og gátu í framhaldi skipt um vagn og komist heim.

„Ég bjóst ekki við að það yrði eitthvað meira svona í dag, þess vegna fórum við bara niður í bæ og ætluðum að fara í þetta atvinnuviðtal. Við ætluðum bara að halda okkar striki eins og fólk var beðið um að gera í fréttum,“ segir Hulda sem ekki hefur verið búsett lengi í Manchester.

Hún kveðst óneitanlega finna fyrir ótta hjá fólki. „Það eru allir að tala um þetta. Þetta er náttúrulega bara skellur fyrir alla og það eru allir harmi slegnir og finna fyrir þessu á einhvern máta.“

Hulda Þórsdóttir Simire er búsett í Manchester. Henni var gert …
Hulda Þórsdóttir Simire er búsett í Manchester. Henni var gert að yfirgefa miðbæinn ásamt fleirum þegar Arndale-verslunarmiðstöðin var rýmd. Ljósmynd/Facebook Hulda Þórsdóttir Simire
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert