„Þetta var svakaleg sprenging“

Lögreglan á vettvangi í Manchester í kvöld.
Lögreglan á vettvangi í Manchester í kvöld. AFP

„Við vorum á leiðinni út og þegar við vorum að koma að dyrunum varð gríðarleg sprenging og allir öskruðu,“ segir Catherine Macfarlane við Reuters-fréttaveituna en hún var stödd á tónleikum bandarísku söngkonunnar Ariana Grande í Manchester Arena í borginni Manchester í Bretlandi í kvöld þegar sprenging varð. Staðfest er að nokkrir hafi látist.

„Þetta var svakaleg sprenging, maður fann fyrir henni. Það var alger ringulreið. Allir voru hlaupandi og öskrandi og reyndu bara að komast út af svæðinu,“ segir hún enn fremur. Josh Elliot segir við breska ríkisútvarpið BBC að hann hafi séð fólk baðað í blóði. Hann telur að einhverjir hafi slasast við að reyna að komast burt í kjölfar sprengingarinnar.

Haft er eftir honum að stórar blöðrur hafi komið niður leikvanginn þegar Grande hafi tekið eitt af lögum sínum. Það fyrsta sem honum hafi dottið í hug hafi verið að ein blaðran hefði líklega sprungið. Við aðstæður sem þessar hugsi fólk hins vegar fyrst og fremst um að koma sér í skjól. Oliver Jones, 17 ára, var með systur sinni á tónleikunum sem er 19 ára.

„Ég var á klósettinu og heyrði háværan hvell rétt eftir að tónleikunum lauk og fólk var farið að yfirgefa svæðið. Hvellurinn bergmálaði í anddyrinu og fólk tók til fótanna. Ég sá fólk öskra og hlaupa í eina átt og síðan fór það að hlaupa til baka. [...] Maður sér svona í fréttinum ítrekað en ímyndar sér aldrei að svona komi fyrir mann sjálfan. 

Háskólaneminn Sebastian Diaz, 19 ára, segir sprenginguna hafa orðið þegar Grande hafði lokið við að flytja síðasta lagið sitt. „Þetta var hræðilegt. Við fundum aðalinnganginn og fólk var grátandi alls staðar.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert