Gengur sprengjusmiðurinn laus?

Vopnuð lögregla við eftirlit í Lundúnum.
Vopnuð lögregla við eftirlit í Lundúnum. AFP

Sérfræðingur BBC í öryggismálum segir bresk öryggisyfirvöld telja að Salman Abedi hafi verið „burðardýr“ sprengju sem hafi verið smíðuð af öðrum. Hann segir yfirvöld ekki hafa fullvissu fyrir því að önnur hryðjuverkaárás sé yfirvofandi en viðbúnaðarstig í landinu hafi verið hækkað þar sem ljóst þyki að Abedi hafi ekki verið einn að verki.

„Þetta var of vel gerður búnaður fyrir einn mann, sérstaklega þennan einstakling, Salman Abedi, að hafa sett saman. Ergo; einhver gerði þetta fyrir hann,“ sagði Frank Gardner í samtali við Radio 2.

„Með öðrum orðum; hann var burðardýr sem bar búnað smíðaðan af einhverjum öðrum. Sá einstaklingur gengur enn laus, þannig að [yfirvöld] verða að gera ráð fyrir möguleikanum á annarri árás. Í versta falli er þessi einstaklingur að smíða fleiri sprengjur og finna fleira fólk til verksins. Vonandi er það ekki tilfellið.“

Gardner sagði öryggisyfirvöld telja að Abedi hefði snúið aftur til Bretlands frá Líbíu fyrir nokkrum dögum og því hefði hann ekki haft nægan tíma til að smíða umræddan sprengjubúnað.

Hann sagðist einnig búast við því að núverandi viðbúnaðarstig, critical, yrði aðeins í gildi í skamman tíma. Lögreglan búi einfaldlega ekki yfir mannafla til að halda því við í meira en rúma viku.

„En á meðan það eru uppi áhyggjur af því að það sé mögulega sprengjusmiður þarna úti með fleiri sprengjur, og mögulega aðra sjálfsmorðsvígamenn til að sprengja þær, þá verða þeir að senda alla lögreglumenn útaf örkinni, þ. á m. vopnaða lögreglu.“

Guardian sagði frá.

Fjöldi lögreglumanna fylgist með Trafalgar-torgi.
Fjöldi lögreglumanna fylgist með Trafalgar-torgi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert