Ráða ekki við að slökkva eldinn

Sænskur slökkviliðsbíll að störfum.
Sænskur slökkviliðsbíll að störfum. Wikipedia

Mikill eldur kom upp í sementsverksmiðju í sveitarfélaginu Slite í Svíþjóð í kvöld. Slökkviliðinu hefur ekki tekist að slökkva eldinn en mikið af eldsmat er í verksmiðjunni. Meðal annars mikið af plasti. Hefur því verið ákveðið að leyfa eldinum að fjara út af sjálfu sér en leggja þess í stað áherslu á að hann breiðist ekki út í nærliggjandi byggingar.

Fram kemur á fréttavef sænska ríkisútvarpsins SVT að fólk í nágrenninu sé beðið að halda sig innandyra og loka gluggum þar sem eiturefni kunni að vera í reyknum. Ekki er þó talin þörf á að rýma hús í nágrenninu þar sem eldurinn kom upp á iðnaðarsvæði. Haft er eftir slökkviliðsmanninum Jarmo Carlsten að vindátt sé hagstæð.

„Það er rými þarna sem er á stærð við íshokkíhöll sem er full af plasti. Við erum núna að gera allt sem við getum til þess að koma í veg fyrir að eldurinn dreifist frekar og við erum heppin að vindáttin er hagstæð þannig að reykurinn fer beint upp,“ segir hann. Spurður um eldsupptök segir hann ekkert liggja fyrir um þau eins og staðan sé núna.

„Við höfum ekki stjórn á aðstæðum í augnablikinu en við erum að fá aðstoð frá slökkviliðsbílum á flugvellinum sem eru að koma okkur til hjálpar með vatnsbyssum,“ segir Carlsten enn fremur. Mikill viðbúnaður er á staðnum en samkvæmt fréttinni er reiknað með því að það taki alla nóttina fyrir eldinn að fjara út af sjálfu sér.

Haft er eftir lögreglunni að ekki sé vitað til þess að manntjón hafi orðið í eldsvoðanum. Fram kemur á fréttavef sænska dagblaðsins Expressen að eldurinn hafi komið upp í skemmu þar sem geymdur hafi verið varningur sem notaður sé við framleiðsluna. Þar á meðal bæði plast og gúmmí. Allt í kring séu aðrar byggingar sem tilheyri verksmiðjunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert