Vilja ekki evrópskt sambandsríki

AFP

Hagsmunum Bandaríkjanna er ekki best borgið með því að til verði evrópskt sambandsríki. Hins vegar vilja bandarísk stjórnvöld sjá öflugt Evrópusamband þar sem þjóðríkin eru við stjórnvölinn. Þetta er haft eftir fræðimanninum Ted Malloch, sem búist er við að verði næsti sendiherra Bandaríkjanna gagnvart sambandinu, á fréttavefnum Euobserver.com.

Fram kemur í fréttinni að Malloch hafi látið ummæli sín falla á fundi á vegum bresku hugveitunnar Open Europe. Sagði hann enn fremur að Evrópusambandið hafi orðið ólýðræðislegra og um leið fjandsamlegra í garð Bandaríkjanna. Forystumenn sambandsins ættu frekar að efla samstarf þjóðríkjanna en leggja áfram áherslu á meiri samruna þeirra.

Malloch sagði enn fremur að Bandaríkin vildu sjá Evrópusambandið ná árangri en aðeins sem viðskiptabandalag. Sagði hann lausnina á vandamálum sambandsins vera raunverulegt lýðræði þar sem kjósendur réðu ferðinni en ekki ókjörnir embættismenn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert