Sat saklaus í fangelsi í 24 ár

Shaurn Thomas.
Shaurn Thomas.

Shaurn Thomas, 43 ára gamall maður frá Fíladelfíu í Bandaríkjunum, hefur verið látinn laus úr fangelsi eftir að hafa setið saklaus inni í 24 ár. Thomas var fundinn sekur um morð árið 1993 en hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu.

Thomas var 19 ára gamall þegar hann var dæmdur fyrir morð á viðskiptajöfri frá Puerto Rico. Dómstóll í Fíladelfíu hefur nú komist að því að ekki hafi verið til staðar næg sönnunargögn til að sakfella Thomas.

Fjarvistarsönnun Thomas á sínum tíma var sú að hann hefði verið staddur á unglingaheimili fyrir unga afbrotamenn þegar morðið var framið og sögðust móðir hans og systir hafa verið með honum. Upplýsingar um innskráningu þeirra sem voru á heimilinu týndust hins vegar og var því ekki hægt að sanna að hann hefði verið staddur inni á heimilinu þar sem kviðdómendur trúðu ekki móður hans og systur.

„Mér líður frábærlega

„Mér líður frábærlega,“ sagði Thomas þegar hann var látinn laus úr fangelsinu á þriðjudagskvöld. Hann faðmaði fjölskyldu sína og sagðist ekki finna fyrir reiði gagnvart neinum. „Lífið er of stutt fyrir svoleiðis lagað. Ég ætla bara að halda mínu striki.“

Þá sagði hann lífsreynslu sína vera mikinn harmleik en þó væri hann ekki sá eini sem hefði gengið í gegnum það að vera ranglega dæmdur fyrir eitthvað sem hann gerði ekki. Hann ætlaði sér því ekki að staldra við heldur halda lífi sínu áfram hamingjusamur.

Lögmaður Thomas er fyrrum yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Fíladelfíu en hann hefur unnið frítt í þágu Thomas síðustu átta ár, fyrir hönd Pennsylvania Innocence Project.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert