FBI rannsakar tengdasoninn

Ivanka Trump, dóttir Donald Trump, ásamt eiginmanni sínum, Jared Kushner, …
Ivanka Trump, dóttir Donald Trump, ásamt eiginmanni sínum, Jared Kushner, ráðgjafa forseta Bandaríkjanna. AFP

Tengdasonur og ráðgjafi forseta Bandaríkjanna, Jared Kushner, er til rannsóknar hjá bandarísku alríkislögreglunni vegna rannsóknar á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í fyrra. Þetta kemur fram í bandarískum fjölmiðlum í dag. 

Samkvæmt fréttum þeirra er talið að hann búi yfir mikilvægum upplýsingum en sé ekki endilega grunaður um saknæmt athæfi. 

Rannsókn FBI miðar að því að skoða hvort Rússar hafi haft áhrif á kosningarnar þegar Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna og tengsl Rússa við framboð Trump. Forsetinn neitar öllum ásökunum um slíkt. 

Lögmaður Kushner segir að skjólstæðingur sinn muni veita allar upplýsingar sem hann geti. Trump hefur lýst ástandinu og rannsókninni sem mestu nornaveiðum í sögu Bandaríkjanna.

Bandarískar leyniþjónustustofnanir telja að yfirvöld í Moskvu hafi reynt að styðja við bakið á framboði Trump í þeirri von að Hillary Clinton,forsetaframbjóðandi demókrata, yrði ekki næsti forseti landsins.

Bandarískir embættismenn, sem ekki voru nafngreindir, sögðu við NBC News að ekki væri talið að Kushner hafi gerst brotlegur við bandarísk lög og að ekki stæði til að ákæra hann.

Washington Post greinir frá því að FBI sé einkum að horfa á fundi sem haldnir voru í fyrra með sendiherra Rússa í Bandaríkjunum, Sergei Kislyak, og bankamanni frá Moskvu, Sergei Gorkov.

Gorkov er yfirmaður Vnsheconom-bankans sem er eitt þeirra fjármálafyrirtækja sem ríkisstjórn Barack Obama beitti refsiaðgerðum vegna afskipti Rússa á Krímskaganum.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert