„Houdini“ tekinn af lífi á áttunda degi

Tommy Arthur.
Tommy Arthur. AFP

Tommy Arthur, 75 ára, var tekinn af lífi seint í gærkvöldi í Alabama eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna heimilaði aftökuna. Þetta var í áttunda skipti sem dauðadómur hans kom til kasta dómstólsins. Í sjö skipti tókst Arthur að komast undan aftöku og fékk vegna þess viðurnefnið „Houdini“ dauðadeildarinnar.

Arthur var tekinn af lífi með banvænni lyfjablöndu í Holman-fangelsinu í Atmore. Aftakan tók hálftíma, segir í frétt Los Angeles Times og var hann úrskurðaður látinn klukkan 23:45 að staðartíma en á miðnætti rann út heimild ríkisins fyrir aftökunni. Ef hún hefði ekki farið fram fyrir miðnætti hefði þurft að fresta henni enn einu sinni.

Saga Arthurs á dauðadeildinni spannar rúma þrjá áratugi. Hann var dæmdur til dauða árið 1983 fyrir morð sem hann neitaði að hafa framið. Síðan þá hafa 58 fangar verið teknir af lífi í Alabama en Arthur hafði tekist á ævintýralegan hátt að forðast endalokin öll þessi ár.

„Tilraunum Thomas Arthur til að forðast réttvísina er loksins lokið,“ segir ríkissaksóknari Alabama, Steve Marshall, í tilkynningu sem gefin var út eftir aftökuna í nótt.

Stjórnarskrárvarinn réttur skilinn eftir við dyrnar

Á áttunda degi var það lyfjablandan sem verjendur Arthurs reyndu að skora á hólm fyrir hæstarétti án árangurs. Óskuðu þeir eftir því að farsíma yrði komið fyrir í aftökuherberginu sem hægt yrði að grípa til ef eitthvað færi úrskeiðis við aftökuna. Þessu hafnaði hæstiréttur.

Sonia Sotomayor, dómari við hæstarétt, skrifar í séráliti sínu sem var birt skömmu fyrir aftökuna að þegar Thomas Arthur fer inn í aftökuherbergið í kvöld skilur hann stjórnarskrárvarinn rétt sinn eftir við dyrnar. Hún segist hafa efasemdir um að eitt lyfjanna, midazolam, standist stjórnarskrárvarinn rétt fanga um að kveljast ekki að óþörfu á dánarstundinni.

Mál Arthurs hefur farið mjög fyrir brjóstið á bæði andstæðingum og stuðningsmönnum dauðarefsinga. Þeir sem eru andsnúnir dauðarefsingum telja að tafirnar á aftökunni séu ekkert annað en pyntingar á meðan þeir sem styðja dauðarefsingar telja að Arthur og lögmenn hans líti á refsingar sem leik sem þeir reyni að svindla í.

Janette Grantham, framkvæmdastjóri VOCAL (Victims of Crime and Leniency), segir að Arthur hafi notað allar brellurnar í bókinni til þess að ráðskast með dómskerfið í 34 ár. Á sama tíma hafi hann nýtt sér alla mögulega kosti til þess að spila með almenning svo hann telji að Arthur sé saklaus. 

Vonandi hefur Houdini tæmt brellupokann segir hún og óskar honum góðrar niðurferðar. „Houdini ekki meira og ekki lengur.“

Arthur var fundinn sekur um samsæri með ástkonu sinni, Judy Wicker, um að myrða eiginmann hennar, Troy, svo hún gæti leyst út líftryggingu hans. Hún var sökuð um að hafa greitt Arthur 10 þúsund bandaríkjadali fyrir morðið. Á þessum tíma hafði Arthur setið inni í fimm ár en látinn laus til reynslu eftir að hafa myrt mágkonu sína árið 1977. Hann játaði það morð en sagði að um óviljaverk hafi verið að ræða en hann hafi verið mjög drukkinn þegar hún lést. Hann neitaði hins vegar alltaf að hafa drepið Wicker.

Skömmu fyrir aftökuna sagði frænka Troy Wicker að aftakan myndi binda enda á áratuga kvalir fjölskyldunnar. Ekki séu til nein orð sem lýsa því helvíti á jörðu sem þetta hafi verið fyrir Wicker-fjölskyldan. „Við vonum og biðjum að aftökunni verði ekki frestað frekar,“ segir Vicky Wilkerson í viðtali við AL.com. 

Eftir morðið á Wicker hélt eiginkona hans því fram við lögreglu að henni hefði verið nauðgað af svörtum manni sem hefði barið hana þannig að hún missti meðvitund og skotið eiginmann hennar. Hún breytti síðar sögu sinni og sagðist hafa greitt Arthur fyrir að myrða eiginmann hennar. Að hennar sögn málaði Arthur andlit sitt svart og var með hárkollu þegar hann framdi morðið.

Lokaorðin voru til barnanna

Arthur beindi lokaorðum sínum til barna sinna: „Mér þykir leitt að hafa brugðist ykkur sem faðir,“ sagði hann. „Ég elska ykkur meira en nokkuð annað á jörðinni.“

Eftir aftökuna sagði Sherrie Stone, elsta barn Arthurs, að hún hefði aldrei vitað fyrir víst hvort faðir hennar hefði myrt Troy Wicker. Um tíma hefði hún verið sannfærð um að svo væri en aðra stundina ekki. Hún muni aldrei fá að vita sannleikann því lífsýnarannsókn hafi ekki verið beitt við rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert