Sá níundi handtekinn

Fórnarlambanna hefur verið minnst í Manchester síðustu daga.
Fórnarlambanna hefur verið minnst í Manchester síðustu daga. AFP

Lögreglan í Manchester hefur nú handtekið 44 ára gamlan mann sem grunaður er um að hafa átt þátt í hryðjuverkaárásinni á mánudag. Eru því alls níu menn í haldi bresku lögreglunnar grunaðir um tengsl við málið. 22 létu lífið og 59 slösuðust þegar Salm­an Abedi sprengdi sig í loft upp í lok tón­leika tón­list­ar­kon­unn­ar Ari­ana Grande í Manchester Ar­ena-tón­leika­höll­inni.

Yf­ir­maður hjá hryðju­verka­deild bresku lög­regl­unn­ar sagði fyrr í dag að lögreglan hefði hand­tekið „stór­an hluta“ þeirra sem stóðu að baki árásinni. Auk þeirra átta sem eru í haldi í Bretlandi eru faðir og bróðir Abed­is í haldi lögreglunnar í Líbíu. 

Eru hinir handteknu í Bretlandi allir karlmenn á aldr­in­um 18-44 ára. Meðal þeirra er Ismail Abedi, 23 ára gam­all bróðir árás­ar­manns­ins.

Mik­ill viðbúnaður er í Bretlandi en rann­sókn lög­reglu bein­ist einkum að því hvort hryðju­verka­hóp­ur frá Líb­ýu hafi staðið á bak við árás­ina. Hryðju­verka­sam­tök­in Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á ódæðinu.

Lög­regl­an leitaði á nokkr­um stöðum í Manchester í gær og fann meðal ann­ars hluti sem svip­ar til þeirra sem notaðir voru í sprengj­una sem sprakk í and­dyri tón­leika­hall­ar­inn­ar á mánu­dags­kvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert