Fleiri handteknir í Bretlandi

AFP

Breska lögreglan handtók í nótt tvo karlmenn í tengslum við rannsókn hennar á hryðjuverkinu í borginni Manchester í Bretlandi í byrjun vikunnar sem kostaði 22 lífið. Mennirnir eru 20 og 22 ára en þar með hafa samtals ellefu verið handteknir vegna árásarinnar í Bretlandi. Líbíska lögreglan hafði áður handtekið föður og yngri bróður árásarmannsins Salmans Abedi.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á hryðjuverkinu og hefur breska lögreglan lagt áherslu á að uppræta hryðjuverkahóp í Bretlandi sem hún telur að Abedi hafi tilheyrt. Talsmaður lögreglunnar sagði við fjölmiðla í gær að tekist hefði undanfarna daga að hafa hendur í hári stórs hluta hópsins. Þar á meðal margra af helstu forystumönnum hans. Hins vegar væri enn nokkuð verk fyrir höndum í þeim efnum.

Viðbúnaðarstig í Bretlandi var hækkað upp í hámark í kjölfar hryðjuverksins og hermenn kallaðir út til að aðstoða vopnaða lögreglu við að tryggja öryggi borgaranna og mikilvæga staði þar sem sýnt þótti að Abedi hefði ekki verið einn að verki. Fyrir vikið var talið mögulegt að frekari árásir yrðu gerðar og er enn talin hætta á að til þess geti komið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert