Játaði morðin en slapp við nálina

Todd Kohlhepp hefur játað að hafa myrt sjö manns.
Todd Kohlhepp hefur játað að hafa myrt sjö manns. AFP

Bandarískur raðmorðingi hefur játað að hafa myrt sjö manns og hefur hlotið lífstíðarfangelsisdóm. Samkvæmt samningi sem hann gerði við saksóknarann kemst hann hjá dauðadómi.

Morðinginn heitir Todd Kohlhepp og er 46 ára. Hann framdi morðin á þrettán ára tímabili í Suður-Karólínu á meðan hann rak fasteignasölu.

Kohlhepp var handtekinn fyrir sjö mánuðum. Lögreglan komst á snoðir um voðaverk hans er hún var að leita að pari sem var saknað. Hún fann við þá leit konu hlekkjaða í geymsluskúr á landareign Kohlhepps.

Kohlhepp myrti fjóra starfsmenn vélhjólaverslunar árið 2003. Hann segist hafa myrt þá eftir að eigandi verslunarinnar hafi reitt sig til reiði.

Hann játaði einnig að hafa myrt hjón sem hann hafði ráðið til vinnu á landareign sinni. Hjónin, sem voru 29 ára karlmaður og 26 ára kona, hurfu sporlaust árið 2015. Lík þeirra fundust á landareign hans eftir að hann var handtekinn.

Kohlhepp var handtekinn er lögreglumenn heyrðu öskur úr skúr á landareign hans. Konan sagði síðar að hún hefði komið ásamt kærasta sínum á svæðið til að vinna nokkru áður. Kohlhepp skaut kærasta hennar til bana og hlekkjaði hana svo við vegg skúrsins. Hann nauðgaði henni svo daglega vikum saman.

Samningur Kohlhepps við saksóknarann felur í sér að hann sleppur við dauðadóm en hlýtur sjöfaldan lífstíðardóm og sextíu ára dóm að auki fyrir mannrán. Hann mun aldrei eiga tækifæri á reynslulausn og getur ekki áfrýjað niðurstöðu dómsins.

Frétt CBS um málið.

Frétt Sky um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert