Á toppi Everest tvisvar í einni viku

Everest.
Everest. AFP

Kilian Jonet, spænskur fjallagarpur og langhlaupari, segist hafa klifið hæsta fjall heims, Mount Everest, á aðeins 17 klukkustundum örfáum dögum eftir að hann gekk upp fjallið á 26 klukkustundum. Eins og fram kemur í frétt The Guardian er þetta aðeins 15 mínútum frá núverandi hraðameti en það er Ítalinn Hans Kammerlander sem á metið, 16 klukkustundir og 45 mínútur, og er það frá árinu 1996.

Aðeins fimm dögum áður hafði Jornet ætlað sér að setja hraðamet í að fara fram og til baka en þurfti að hægja á sér vegna magakveisu sem hann fékk á leiðinni niður. Með því að klífa fjallið án aukasúrefnis og án þess að tryggja sig í öryggislínu tókst honum að komast hraðar yfir en ein aðalhindrun hans var sérstaklega sterkur vindurinn þann daginn.

Eins og áður hefur verið greint frá fundust fjórir látnir á Everest-fjalli í síðustu viku en talið er að allt að tíu manns hafi látist á fjallinu í vor. Er aðalhindrun göngufólks oft súrefnisskortur auk margvíslegra slysa.

Jornet hefur áður sett hraðamet á mörgum af þekktustu fjöllum heims, þar á meðal Mont Blanc og Matterhorn í Evrópu auk Denali í Norður-Ameríku og Aconcagua í Suður-Ameríku. Hann segist sjá íþróttina sem leið til þess að uppgötva landslag jafnt að utan sem og innra með sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert