Verkamannaflokkurinn saxar á fylgi May

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í kosningaþætti í bresku sjónvarpi í …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í kosningaþætti í bresku sjónvarpi í kvöld. Skoðanakannanir benda til þess að dregið hafi saman með Íhaldsflokknum og Verkamannaflokknum. AFP

Dregið hefur saman með breska Íhaldsflokknum og Verkamannaflokknum samkvæmt nýrri skoðanakönnun að sögn Reuters-fréttastofunnar. Er fylgi Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, sagt hafa fallið um 6 prósentustig frá síðustu könnun.

Skoðanakönnunin var gerð eftir hryðjuverkaárásina í Manchester og eftir U-beygju bresku stjórnarinnar í heilbrigðismálum aldraðra.

Rúm vika er nú þar til Bretar ganga að kjörkössunum og velja sér nýtt þing. Fyrir tæpum tveimur vikum var útlit fyrir að Íhaldsflokkurinn myndi vinna yfirburðasigur í kosningunum sem May boðaði til til að styrkja umboð sitt í útgönguviðræðum Breta úr Evrópusambandinu.

Skoðanakönnunin sem gerð var fyrir Good Morning Britain, morgunþátt ITV-sjónvarpsstöðvarinnar, bendir til þess að Íhaldsflokkurinn fengi 43% atkvæða yrði kosin nú, en Verkamannaflokkurinn 37%, sem er 3% meira en í síðustu könnun.

Könnunin var gerð dagana 26. og 27. maí, eftir hryðjuverkaárásina í Manchester og eftir að stjórnvöld tilkynntu óvinsælar ráðagerðir um að láta eftirlaunaþega standa straum af kostnaði við eigin umönnun í meira mæli en áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert