Barnaníðingar í farbann

AFP

Dæmdir barnaníðingar verða sviptir vegabréfum til þess að koma í veg fyrir að þeir geti farið úr landi og brotið af sér að nýju samkvæmt frumvarpi til laga sem lagt verður fram á ástralska þinginu á næstu dögum. 

Lögin miða að því að koma í veg fyrir að barnaníðingar geti farið úr landi en lagasetningin er liður í baráttunni gegn barnaníðs-ferðamennsku.

„Nýju lögin munu koma í veg fyrir að dæmdir barnaníðingar geti farið frá Ástralíu eða átt áströlsk vegabréf,“ segir utanríkisráðherra Ástralíu, Julie Bishop.

Hún segir að á aðeins einu ári, árið 2016, hafi tæplega átta hundruð dæmdir barnaníðingar ferðast til útlanda frá Ástralíu. Margir þeirra hafi farið til þróunarríkja í Asíu. Um helmingur þeirra er líklegur til þess að brjóta gegn börnum á nýjan leik.

Lögin verða sett í kjölfar ýmissa mála sem upp hafa komið varðandi afbrot ástralskra barnaníðinga. Til að mynda Robert Ellis sem var í fyrra dæmdur fyrir ofbeldi gagnvart 11 indónesískum stúlkum á eyjunni Bali.

Dómsmálaráðherra Ástralíu, Michael Keenan, segir að nýju lögin séu viðamestu aðgerðir sem hafi verið farið í gegn barnaníðs-ferðamennsku. Ekkert ríki hafi áður gripið til svo harkalegra aðgerða til að koma í veg fyrir að borgarar lands fari til útlanda og brjóti gegn börnum.

Keenan á von á því að stjórnvöld eigi eftir að neita um 20 þúsund manns um vegabréf en um er að ræða fólk sem hefur afplánað en er enn undir eftirliti. Von er á að 2.500 ný mál séu skráð á ári hverju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert