Dæmd fyrir að drekkja börnum sínum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Móðir var dæmd í rúmlega 26 ára fangelsi í Ástralíu í dag fyrir að hafa ekið bifreið sinni vísvitandi út í stöðuvatn með fjögur börn sín með sér í bifreiðinni. Þrjú barna hennar drukknuðu en eitt komst lífs af.

Akon Guode, 37 ára, drap son sinn Bol, eins árs, og tvíburana Hanger og Madit, sem voru fjögurra ára gömul, í Melbourne árið 2015. Alual, sex ára, lifði af.

Guode játaði fyrir dómi að hafa myrt börnin sín en að sögn dómarans í málinu er ástæðan fyrir verknaði hennar óljós.

„Svik þín gagnvart þeim eru skelfileg,“ sagði dómarinn, Lex Lasry, fyrir rétti í morgun. „Fólk vill reyna að skilja hvers vegna þú gerðir það sem þú gerðir. Því fyrir foreldra, sérstaklega þá sem eiga ung börn, eru hlutir sem þessir óhugsandi og fjarlægir.“

„Mín skoðun er sú að viðbrögð þín séu afleiðing að algjörri örvæntingu. Miklu frekar en hefnd af einhverju tagi,“ sagði Lasry.

Þeir sem urðu vitni að atburðinum og bráðaliðar reyndu að bjarga börnunum nánast um leið og bíllinn hafnaði í vatninu í úthverfi Wyndham Vale. Aðeins tókst að bjarga Guode og Alual.

Við málflutninginn lýstu vitni þeirri skelfingu sem þau upplifðu þennan dag. „Þau (börnin) flutu, þau flutu á vatninu,“ sagði eitt vitnanna þegar það hringdi í neyðarlínuna og tilkynnti um atvikið. „Þau kunna ekki að synda.“

Joseph Manyang, faðir barnanna, bar fyrir dómi að Guode væri ástrík móðir og myndi aldrei skaða börn sín vísvitandi.  En aðalvitni lögreglunnar í málinu segir að Guode hafi talað um að drepa börn sín daginn áður en hryllingurinn átti sér stað.

Dómarinn lýsti því fyrir rétti að Goude, sem kom til Ástralíu sem flóttamaður, hafi upplifað skelfilega hluti í Suður-Súdan þar sem eiginmaður hennar var drepinn fyrir framan hana.

„Hún hefur átt einstaklega erfitt líf,“ sagði Lasry. Guode hafi þjáðst af áfallastreituröskun, þunglyndi og einangrun frá samfélagi Súdana.

Hann dæmdi hana í 26 ára og sex mánaða fangelsi og með möguleika á lausn eftir 20 ár. Að sögn Lasry verður henni væntanlega vísað úr landi að lokinni afplánun.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert