„Einn og nakinn“ í Brexit-viðræður

May skaut föstum skotum á Corbyn.
May skaut föstum skotum á Corbyn. AFP

„Hann er ekki reiðubúinn til að nota kjarnorkufælingarmáttinn, hann er ekki reiðubúinn til að grípa til aðgerða gegn hryðjuverkamönnum, hann er ekki reiðubúinn til að veita lögreglunni það vald sem hún þarf til að vernda okkur.“

Þannig talaði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, um Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, á kosningafundi í Wolverhampton í dag. May sparaði ekki stóru orðin um andstæðing sinn en leiðtogarnir tókust á í kappræðum undir stjórn Jeremy Paxman í gærkvöldi.

May uppskar mikinn hlátur viðstaddra þegar hún lýsti því hvernig það færi ef Corbyn færi fyrir Brexit-viðræðunum við Evrópusambandið.

„Umsjónarmenn Jeremy Corbyn geta sett hann í smart blá jakkaföt fyrir viðtal við Jeremy Paxman en ef horft er til afstöðu hans til Brexit mun hann standa einn og nakinn í samningaviðræðunum við Evrópusambandið,“ sagði forsætisráðherrann.

„Ég veit að það er ekki fýsileg tilhugsun. En þetta er í raun mjög alvarlegt,“ bætti hún við og sagði Corbyn engan veginn í stakk búinn til að fara fyrir viðræðunum. Sjálf sagðist hún hins vegar reiðubúin til að taka þær erfiðu ákvarðanir sem forysta krefðist.

May sagði Brexit eina kosningamálið og að Verkamannaflokkurinn hefði lagt fram sjö ólíkar Brexit-áætlanir á níu mánuðum. „Það veltur allt á og mun ráðast af niðurstöðu næstu fimm ára,“ sagði hún. „Þetta er ekki tíminn fyrir veikan leiðtoga að taka ákvarðanir jafnóðum.“

Verkamannaflokkurinn hefur saxað á forskot Íhaldsflokksins.
Verkamannaflokkurinn hefur saxað á forskot Íhaldsflokksins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert