Mora fellir fimm manns

Fólk kemur sér í skjól undan fellibylnum.
Fólk kemur sér í skjól undan fellibylnum. AFP

Að minnsta kosti fimm manns hafa látið lífið eftir að fellibylurinn Mora skall á suðaust­ur­strönd Bangla­dess klukkan sex í morgun. Flestir þeirra létust þegar tré féllu á þau. BBC greinir frá. 

Hundruð heimila hafa skemmst, að sögn yfirvalda. Mikla skemmdir hafa einnig orðið á flóttamannabúðum á svæðinu þar sem Rohingya-múslimar sækja skjól en flestir þeirra flýja ofsóknir í heimalandi sínu Mjanmar sem liggur að Bangladess. AFP-fréttaveitan segir að 450 þúsund manns eru þar og hafa þurft að flýja í næstu þorp.   

Vindhraðinn hefur náð allt að 135 km/klst. Mora skall fyrst á ströndina milli sjávarþorpsins Cox's Bazar og borgarinnar Chittagong. 

Mörg þúsund manns hafa verið flutt í skjól ýmist inn í skóla eða opinberar byggingar. Öllu flugi á svæðinu hefur verið aflýst og ferðamönnum og sjómönnum hefur verið ráðlagt að ferðast ekkert. 

Fólk í flóttamannabúðum þurfti að flýja í skjól.
Fólk í flóttamannabúðum þurfti að flýja í skjól. AFP

Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka þar sem erfiðlega gengur að ná sambandi við þau svæði sem hafa orðið verst úti, að sögn stjórnvalda.

Mora hefur einnig valdið talsverðum skemmdum í vesturhluta Mjanmar. Búist er við að fellibylurinn eigi einnig eftir að valda talsverðum usla í austurhluta Indlands. 

Fellibylurinn tekur stefnuna norður og smám saman dregur úr krafti hans þegar hann færist inn til landsins. Þegar hann missir styrk verður hann kröftugur hitabeltisstormur.    

Stormar og fellibyljir eru algengir í Bengalflóanum einkum yfir monsoon-rigningarnar. 

Í fyrra létust að minnsta kosti 24 í Bangladess þegar fellibylurinn Roanu reið yfir landið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert