Seldi upptökur af hryðjuverkaárás

AFP

Franskur dómstóll hefur dæmt framkvæmdastjóra pizzastaðar til að greiða um 2,2 milljónir króna í sektir og skaðabætur fyrir að hafa afhent breska götublaðinu Daily Mail upptökur af árás hryðjuverkamanna í París í nóvember 2015.

Aðeins fimm dögum eftir að árásarmennirnir létu til skarar skríða og myrtu 130 birti Daily Mail myndir af óttaslegnum viðskiptavinum pizzastaðarins Cosa Nostra, þar sem þeir leituðu skjóls á sama tíma og byssukúlum rigndi yfir þá.

Enginn þeirra sem var inni á staðnum þegar árásin átti sér stað lést en fimm dóu fyrir utan pizzastaðinn.

Framkvæmdastjóri Cosa Nostra, Dimitri Mohamadi, var m.a. fundinn sekur um að hafa deilt upptökum úr öryggisbúnaði með óviðkomandi aðila. Vitni sögðu Daily Mail hafa greitt Mohamadi 5,6 milljónir króna fyrir upptökurnar og þá birti franska sjónvarpsstöðin Canal+ upptökur af því þegar samningaviðræðurnar um söluna fóru fram.

Mohamadi hefur neitað því að hafa hagnast á upptökunum en annar sakborningur í málinu játaði að hafa þegið 670.000 krónur fyrir sinn þátt.

Það voru tveir ungir menn og ung kona sem kærðu málið eftir að þau báru kennsl á sig á upptökunum. Þau voru viðstödd dómsuppkvaðninguna í dag en vildu ekki tjá sig um dóminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert