Stjörnum prýddir tónleikar Grande

Ariana Grande að syngja á MTV-tónlistarverðlaunahátíðinni í fyrra.
Ariana Grande að syngja á MTV-tónlistarverðlaunahátíðinni í fyrra. AFP

Justin Bieber, Coldplay og Katy Perry eru á meðal þeirra sem munu kom fram á styrktartónleikum Ariönu Grande, sem hún hyggst halda á sunnudaginn næstkomandi í Manchester.

Tónleikarnir bera yfirskriftina „One Love“ eða Ein ást, og er ætlað að afla fjár fyrir fjölskyldur fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar sem gerð var í lok tónleika Grande í Manchester Arena-tónleikahöllinni fyrir viku síðan. 22 létust í árásinni og 116 særðust.

Fjölmargir tónlistarmenn og hljómsveitir munu koma fram á tónleikunum. Auk fyrrgreindra má nefna Take That, Miley Cyrus, Pharrell, Usher og Niall Horan. Tónleikarnir munu fara fram á Old Trafford krikketvellinum.

Beðnir um að koma ekki með töskur

Grande hefur boðið öllum þeim sem voru á tónleikunum hennar síðastliðinn mánudag í Manchester fría miða á styrktartónleikana. Alls tekur völlurinn um 50 þúsund manns og verða tónleikarnir einnig sýndir í beinni útsendingu á BBC.

Sala á miðum á tónleikana hefst á fimmtudag. Mun allur ágóði renna til We Love Manchester styrktarsjóðsins sem var stofnaður eftir árásina. Áætlað er að um 2 milljónir punda muni safnast, eða um 250 milljónir króna. Hafa þeir sem hyggjast mæta verið beðnir um að koma ekki með töskur.

„Við mun­um ekki láta hatrið vinna“

Í yfirlýsingu sem Grande birti á Twitter fyrir nokkrum dögum sagði hún að svarið við árásinni yrði að vera það að „standa sam­an, hjálpa hvert öðru, elska meira, syngja hærra og vera vin­gjarn­legri og ör­lát­ari en við vor­um áður.“

Þar sagðist hún vilja gera allt sem í henn­ar valdi stend­ur til að hjálpa aðdá­end­um sín­um sem lentu í árás­inni og fjöl­skyld­um þeirra. „Við mun­um ekki hætta eða láta ótt­ann stjórna okk­ur. Við mun­um ekki láta þetta sundra okk­ur. Við mun­um ekki láta hatrið vinna,“ skrif­aði hún. „Ég vil ekki að þetta ár líði án þess að ég geti séð og upp­hafið aðdá­end­ur mína á sama hátt og þeir upp­hefja mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert