Fundu 44 látna í eyðimörkinni

Sahara-eyðimörkin.
Sahara-eyðimörkin. Wikipedia

Að minnsta kosti 44 flóttamenn, þeirra á meðal börn, hafa fundist látnir í eyðimörkinni í norðurhluta Níger. Fólkið var á leið til Líbíu þegar bifreið þeirra bilaði.

Rhissa Feltou, bæjarstjóri Agadez, staðfesti fundinn en bærinn stendur við jaðar Sahara-eyðimerkurinnar og hefur verið kallaður „smyglarahöfuðborg Afríku.“

Rauði krossinn hefur sent teymi á vettvang til að kanna málið. Að sögn heimildarmanns AFP lést fólkið úr ofþornun.

Í maí fundust átta flóttamenn frá Níger, þar af fimm börn, látnir í eyðimörkinni en talið er að þeir hafi verið á leið til Alsír. Þá björguðu hermenn um 40 flóttamönnum frá ýmsum ríkjum Vestur-Afríku sem höfðu verið yfirgefnir af fólksmyglurum á leið sinni til Líbíu.

Meðal fólksins voru einstaklingar frá Gambíu, Nígeríu, Gíneu, Senegal og Níger. Allir báru þá von í brjósti að komast til Líbíu til að geta ferðast þaðan til Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert