Pútín: Hakkararnir mögulega þjóðernisinnaðir

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir fræðilega mögulegt að þjóðernissinnaðir hakkarar grípi …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir fræðilega mögulegt að þjóðernissinnaðir hakkarar grípi til eigin ráða í baráttunni gegn þeim sem gagnrýna Rússland. AFP

Vera kann að þjóðernissinnaðir rússneskir tölvuþrjótar hafi staðið fyrir tölvuárásum í öðrum ríkjum. Þetta sagði Vladimír Pútin Rússlandsforseti á fundi með erlendum fjölmiðlum í dag og fullyrti hann að ef þeir hefðu gert slíkt, þá hefði það verið á eigin vegum. Rússnesk stjórnvöld hafi aldrei tekið þátt í slíkum aðgerðum.

Samskipti Rússa og ríkja á borð við Bandaríkin og Frakkland hafa orðið stirðari vegna netárása sem leyniþjónustur ríkjanna hafa rakið til Rússlands. Segir Reuters fréttastofan viðhorf rússneskra ráðamanna til netárása nú vera undir smásjánni hjá erlendum ríkjum, en bandaríska leyniþjónustan hefur m.a. sagt rússneska tölvuþrjóta hafa reynt að auka sigurlíkur Donald Trump í bandarísku forsetakosningunum síðasta haust.

„Ef þeir [tölvuþrjótarnir] eru þjóðernissinnaðir þá geta þeir farið að leggja sitt af mörkum til þess sem þeir telja vera baráttuna gegn þeim sem tala illa um Rússland. Kann það að vera mögulegt? Fræðilega kann svo að vera,“ sagði Pútín.

Þá væri einnig hægt að láta líta svo út sem að tölvuárásirnar kæmu frá Rússlandi þrátt fyrir að svo væri ekki. Sjálfur kvaðst hann vera þeirra skoðunar að tölvuþrjótar gætu ekki haft áhrif á kosningabaráttu, hvorki í Bandaríkjunum, Evrópu, né annars staðar.

„Hvað ríkið varðar, þá höfum við ekki tekið þátt í tölvuárásunum og höfum engan hug á að gera slíkt. Þvert á móti þá erum við einnig að berjast við slíkt innan Rússlands,“ sagði Pútín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert