Sprengingar í höfuðborg Filippseyja

Vitni segja grímuklædda byssumenn hafa farið inn á hótelið.
Vitni segja grímuklædda byssumenn hafa farið inn á hótelið. AFP

Skothvellir og sprengingar heyrðust frá hóteli á vinsælum ferðamannastað í Manila, höfuðborg Filippseyja, fyrir skömmu, en slökkviðlið borgarinnar segir að mikill eldur sé laus á annarri hæð hótelbyggingarinnar. Reuters greinir frá.

Vitni segjast hafa séð nokkra vopnaða menn við hótelbyggingar, en í frétt ANC-fréttastofunnar um málið kom fram að byssumennirnir væru tveir, þeir væru svartklæddir með grímur. Þessar upplýsingar hafa hins vegar ekki fengist staðfestar hjá lögreglunni.

Myndir sem birst hafa á samfélagsmiðlum sýna að mikinn reyk leggur frá einni byggingu. Heimildarmaður Reuters segir að verið sé að flytja starfsfólk og hótelgesti úr byggingunum.

Talsmaður hersins segir lögregluna hafa náð tökum á ástandinu en að herinn sé engu að síður í viðbragðsstöðu.

Engin samtök hafa lýst sig ábyrg fyrir skotárásinni, en síðustu daga hefur herinn barist gegn öfgasinnuðum múslimum á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert