London enn ein öruggasta borg í heimi

Lögreglumenn á gangi í Borough-hverfinu í morgunsárið.
Lögreglumenn á gangi í Borough-hverfinu í morgunsárið. AFP

Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, segir að hryðjuverkamennirnir vilji koma í veg fyrir að íbúar borgarinnar njóti frelsis. Hluti af því frelsi sé að kjósa í þingkosningum, sem fara fram í Bretlandi eftir fjóra daga. 

„Þeir [hryðjuverkamennirnir] vilja að við hættum að njóta frelsisins sem við höfum. Þeir vilja ekki að við kjósum á fimmtudaginn, við getum ekki leyft þeim það,“ sagði Khan snemma í morgun.

Breska lögreglan skaut þrjá karl­menn til bana sem eru grunaðir um að hafa staðið á bak við árás­ir við London-brú og Borough-markaðinn í gærkvöldi. Lögreglan segir að mennirnir hafi myrt sex og hafa 48 verið fluttir á sjúkrahús.

Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna.
Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna. AFP

Khan hrósaði fólki sem vann á vettvangi og sagði að það hefði komið í veg fyrir að enn verr hefði farið. Hann sagðist vera bálreiður yfir því að árásmennirnir hefðu ráðist á saklausa íbúa Lundúna.

„Sex manns hafa verið myrtir og meira en 40 manns eru slasaðir. Ástand sumra hinna slösuðu er alvarlegt,“ sagði Khan og bætti við að öryggisgæsla í London yrði hert næstu daga.

„Fólk í London mun sjá fleiri lögregluþjóna næstu daga,“ sagði Khan og tók það fram að London væri ennþá ein öruggasta borg í heimi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert