Indverjar senda „skrímsli“ í loftið

Indverska eldflaugin GSLV-mark III sem skotið var á loft í …
Indverska eldflaugin GSLV-mark III sem skotið var á loft í dag vegur 640 tonn og er 43 metra há. AFP

Geimrannsóknastofnun Indlands hefur tekist að senda í loftið sína stærstu eldflaug til þessa. Flaugin vegur 640 tonn og var henni skotið í loftið í Bengal-flóa í Sriharikota á Indlandi í dag. Áfangin markar stórt skref fyrir Indverja sem lengi hafa reynt að auka hlutdeild sína á heimsvísu í þessum efnum.

Ýmsir hafa brugðið á leik með að setja stærð flaugarinnar í samhengi en til dæmis jafngilda 640 tonn því sem nemur þyngd 200 fíla eða fimm risaþota. Þá er geimflaugin 43 metra há, en það er til að mynda hærra en Frelsisstyttan í New York sem er ekki nema tæplega 34 metra há fyrir utan undirstöðupallinn.

Sérfræðingar segja að vel heppnað geimskotið muni örva innlendar geimrannsóknir Indverja. Eldflaugin og skotpallur hennar mun draga úr þörf indversku geimrannsóknastofnunarinnar (Isro) til að treysta á evrópskan búnað til að senda geimflaugar í loftið.

Hingað til hafa Indverjar reitt sig á það að önnur lönd sendi stór gervitungl út í geiminn sem er umfangsmikil aðgerð og afar kostnaðarsöm sem þrengir að pyngju indversku geimvísindarannsóknarstofnunarinnar.

Eldflaugin, GSLV Mark III, er þó langt frá því að vera sú stærsta í heimi en Saturn V, flaugin sem Nasa notaði á árunum 1967-1973, er enn þá sú allra þyngsta og gat hún borið fjórum sinnum meiri þyngd en GSLV Mark III.

„Áður gátum við sent [gervitungl sem vega] allt að tveimur tonnum. Þetta er tvöfalt stökk fyrir Indland,“ segir Ajay Lele hjá Rannsóknarstofnun varnarmála í Indlandi í samtali við AFP-fréttastöðina.

Indverska geimrannsóknastofnunin vonast til þess að flaugin, sem í fjölmiðlum hefur meðal annars hefur verið kölluð „skrímslið,“ muni árið 2024 geta sent geimfara út í geiminn, en Indverjar vilja gjarnan verða fjórða þjóðin á eftir Rússum, Kínverjum og Bandaríkjamönnum til að senda mann út í geim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert