Rannsaka kynþáttahatur finnsku lögreglunnar

Helsinki, höfuðborg Finnlands. Niðrandi ummæli finnskra lögreglumanna um hælisleitendur í …
Helsinki, höfuðborg Finnlands. Niðrandi ummæli finnskra lögreglumanna um hælisleitendur í leynilegum Facebook hópi eru nú til rannsóknar.

Finnskir lögreglumenn kunna að sæta ákæru fyrir að birta ummæli sem einkennast af kynþáttahatri um hælisleitendur í leynilegum hópi á Facebook.

Finnski rannsóknarfréttavefurinn Long Play hefur fjallað um færslurnar og hefur yfirstjórn lögreglunnar sent efnið áfram til ríkissaksóknara landsins, að því er BBC hefur eftir finnsku lögreglunni.

Í Facebook-hópinum deila menn niðrandi ummælum um hælisleitendur frá öfgahægri mönnum. Meðal þeirra færslna sem þar hafa verið birtar eru háðsummæli um hælisleitanda sem reyndi að fremja sjálfsmorð í Helsinki í mars.

„Allir finnskir ríkisborgarar búa við málfrelsi, en sú krafa er gerð til lögreglumanna að í frítíma sínum geri þeir ekkert sem kemur illa við lögregluna,“ hefur BBC eftir talsmanni finnsku lögreglunnar.

Ekki liggur fyrir hversu margir lögreglumenn hafa tjáð sig í Facebook hópinum, en félagar þar eru hátt í 3.000 talsins.

„Málið verður rannsakað vandlega,“ sagði Paula Risikko innanríkisráðherra Finnlands. „Það er ekkert rúm fyrir kynþáttahatur og skrif af þessu tagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert