Vissi lítið um hryðjuverkaskýrslu

Diane Abbott ásamt Jeremy Corbyn, leiðtoga breska Verkamannaflokksins (til hægri).
Diane Abbott ásamt Jeremy Corbyn, leiðtoga breska Verkamannaflokksins (til hægri). AFP

Skuggaráðherra breska Verkamannaflokksins í innanríkismálum, Diane Abbott, átti ekki sjö dagana sæla í viðtali á sjónvarpsstöðinni Sky í gærkvöldi þegar hún var spurð út í skýrslu um aðgerðir gegn hryðjuverkum í London sem unnin var að beiðni borgarstjórans Sadiqs Khan og birt í október á síðasta ári. Khan, líkt og Abbott, kemur úr Verkamannaflokknum.

Abbott, sem er líkleg til þess að verða innanríkisráðherra Bretlands verði Verkamannaflokkurinn í næstu ríkisstjórn landsins að oknum þingkosningunum á fimmtudaginn, var ítrekað spurð út í meginatriði skýrslunnar en hún átti í stökustu vandræðum með að ræða efni hennar að neinu ráði. Engu að síður fullyrti hún aðspurð að hún hefði lesið skýrsluna og sagði mikilvægt að taka hana aftur til skoðunar.

Spurð hvaða hluta skýrslunnar væri að hennar mati mikilvægt að skoða gat Abbott hins vegar ekki svarað því. Hins vegar þyrfti ekki endilega að fara eftir öllum þeim tillögum sem kæmu fram í skýrslunni. Spyrillinn, Dermot Murnaghan, spurði hvort hún gæti rifjað upp einhverjar af þeim tillögum sem taldar væru upp í skýrslunni og gat hún heldur ekki svarað því. 

Fjallað er meðal annars um málið á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert