Móðir árás­ar­manns: „Inni­lega fyr­ir­gefið þið“

Youssef Zaghba var 22 ára gamall.
Youssef Zaghba var 22 ára gamall. AFP

Móðir eins þeirra þriggja manna sem frömdu hryðjuverkaárásina í Lundúnum um helgina segist finna fyrir miklum sársauka fyrir hönd fórnarlamba árásanna og fjölskyldna þeirra. 

„Ég á engin orð. Þetta er of stórt,“ segir Valeria Collina, móðir Youssef Zaghba, í viðtali við Sky News„Ég skil sársauka þeirra því sem móðir finn ég hann líka.“ Segist hún hafa átt regluleg samtöl við son sinn dagana fyrir árásina. Hann hafi hljómað sorgmæddur.

Kennir netinu um viðhorf sonar síns

Eins og fjallað hefur verið um urðu mennirnir þrír sjö manns að bana við London-brúna og Borough-markaðinn á laugardagskvöld. Óku þeir sendibíl inn í hóp vegfarenda á brúnni og héldu þaðan fótgangandi að markaðnum þar sem þeir stungu með hnífum þá sem á leið þeirra urðu. Alls særðu þeir 48 manns. Átta lög­reglu­menn felldu þre­menn­ing­ana nokkr­um mín­út­um eft­ir að fyrsta neyðarkallið barst.

Zaghba var 22 ára gamall af marokkóskum og ítölskum uppruna. Kennir móðir hans netinu um viðhorf sonar síns. 

Lögregluþjónar að störfum í London.
Lögregluþjónar að störfum í London. AFP

Þetta hefði aldrei átt að gerast

Collina segist hafa unnið áður með stjórnvöldum til að hindra son sinn frá því að ferðast til Sýrlands þar sem talið var að hann hafi ætlað að taka þátt í bardögum Ríkis íslams. Var hann hand­tek­inn á flug­vell­in­um í Bologna á síðasta ári þegar hann reyndi að kom­ast um borð í flug­vél á leið til Tyrk­lands þaðan sem hann ætlaði áfram til Sýrlands.

Móðir hans segist þó hafa haldið að sonur sinn væri í góðu jafnvægi eftir að hann flutti til Lundúna. Hann hafi verið í góðri vinnu og liðið vel. „Ég hafði enga hugmynd um þessi viðhorf hans. Ég vissi ekkert hvað var í gangi. Hann sendi mér myndbönd þar sem hann var svo rólegur,“ segir hún. „Ég trúði ekki því sem gerðist. Þetta hefði aldrei átt að gerast.

Ætlaði að heimsækja soninn

Collina ætlaði að heimsækja son sinn í næstu viku þegar Ramadan lýkur. Hún komst að því að gerð hefði verið hryðjuverkaárás á netinu og reyndi í kjölfarið að ná í son sinn. „Ég náði ekki í hann og áttaði mig á því að hann hefði hugsanlega haft eitthvað með þetta að gera.“

Loks segist Collina vilja biðjast fyrirgefningar. „Ef það væri einhver tilgangur með því að biðja um fyrirgefningu, þá myndi ég gera það. Innilega fyrirgefið þið. Fólk þarf að vita hversu mikið ég harma þetta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert