Öryggi framar mannréttindum

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, mætir á kosningafund í gær.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, mætir á kosningafund í gær. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hyggst strax á föstudaginn, daginn eftir þingkosningarnar í landinu, herða aðgerðir breskra stjórnvalda vegna mögulegra hryðjuverka haldi Íhaldsflokkur hennar meirihluta í neðri deild breska þingsins. Þetta sagði hún í gærkvöldi. Sagðist hún ekki ætla að láta mannréttindi standa í vegi fyrir því.

Meðal annars hyggst May tryggja að auðveldara verði að vísa erlendum ríkisborgurum, sem grunaðir eru um að skipuleggja hryðjuverk, úr landi og auka heimildir í lögum til þess að setja skorður á ferðafrelsi breskra ríkisborgara sem grunaðir eru um það sama. May hefur setið undir gagnrýni vegna áherslna sinna til þessa vegna hryðjuverkaógnarinnar.

Ráðherrann hefur þurft að svara fjölmörgum spurningum vegna hryðjuverkamannanna þriggja sem stóðu að hryðjuverkinu í London um helgina sem kostaði sjö lífið. Bresku leyniþjónustunni var kunnugt um tvo þeirra en engu að síður tókst ekki að koma í veg fyrir hryðjuverkið. Þá hefur hún verið gagnrýnd fyrir niðurskurð til löggæslumála síðustu ár.

May hefur reynt að snúa vörn í sókn í þessum efnum á síðustu metrunum fyrir þingkosningarnar á morgun en skoðanakannanir hafa sumar bent til þess að mjótt sé á mununum á milli Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins. Rifjaði hún upp í gærkvöldi á framboðsfundi í bænum Slough eigin ræðu í kjölfar hryðjuverksins.

Þar sagði ráðherrann að komið væri nóg af hryðjuverkum og að nú yrði að taka öðruvísi á málum. Sagði hún enn fremur í gærkvöldi að ef mannréttindalög stæðu í vegi fyrir því að hægt yrði að taka á hryðjuverkaógninni yrði að breyta þeim svo það yrði hægt. Meðal annars vill hún þyngri fangelsisdóma og að lögregla og leyniþjónusta fái meiri valdheimildir.

Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert