Fáir heitir fyrir kaldri May

AFP

Þessi skoðanakannanabransi hér í Bretlandi hefur verið í talsverðri krísu,“ segir Halla Gunnarsdóttir í samtali við mbl.is um skoðanakannanir sem gerðar hafa verið að undanförnu í tengslum við bresku þingkosningarnar sem fram fara í dag.

Kannanirnar að undanförnu hafa verið mjög misvísandi og annað hvort sýnt Íhaldsflokkinn og Verkamannaflokkinn nánast jafna að fylgi eða þann fyrrnefnda með forskot upp á einhver prósentustig. Síðustu kannanir frá í gær benda þó til þess að Íhaldsflokkurinn hafi aukið forskot sitt. Mismikið þó. Sjálf hefur Halla sinnt framboðsstörfum fyrir Breska kvennalistann eða Women's Equality Party sem stofnaður var fyrir tveimur árum.

Fyrirtæki sem gera skoðanakannanir í Bretlandi hafa sætt talsverðri gagnrýni. „Bæði vegna þingkosninganna 2015 og vegna þjóðaratkvæðisins um Evrópusambandið á síðasta ári. Verkamannaflokknum var þannig til að mynda spáð miklu meira fylgi 2015 en flokkurinn síðan fékk. Þá var reyndar mikið talað um svokallaða feimna íhaldsmenn, það er stuðningsmenn Íhaldsflokksins sem gefi ekki upp stuðning sinn í skoðanakönnunum. Núna er líka verið að tala um þetta hugtak. Ég á þannig alveg eins von á því að það eigi við í þessum kosningum líka,“ segir Halla.

Halla Gunnarsdóttir.
Halla Gunnarsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Þannig hafi David Cameron, þáverandi leiðtoga Íhaldsflokksins, ekki verið spáð þingmeirihluta í skoðanakönnunum sem hann hafi síðan náð í kosningunum. „Hins vegar er líka verið að tala um núna feimna kjósendur Verkamannaflokksins undir Jeremy Corbyn. Vegna þess hversu umdeildur hann hefur verið.“ Spurð hvort hún telji að Theresa May, forsætisráðherra og arftaki Camerons, haldi meirihluta sínum segir Halla að hún telji það líklegt en minni en spáð hafi verið upphaflega.

Buðu öðrum flokkum að stela stefnunni

Spurð um gengi Breska kvennalistans segir Halla að kosningabarátta flokksins hafi gengið vel. „Það er auðvitað áskorun fyrir nýjan flokk að fá aðeins sjö vikur til þess að bjóða fram í fyrsta sinn í þingkosningum. Þetta hefur verið mjög áhugavert. Við erum þverpólitískur flokkur. Við erum hvorki vinstri-, hægri- né miðjuflokkur. Svipað og var með Kvennalistann á Íslandi. Við höfum því þurft að velja vel í hvaða kjördæmi við beindum kröftum okkar. Viðbrögðin hafa verið mjög áhugaverð. Síðan er kosningakerfið ekki mjög hagstætt fyrir nýja flokka.“

Verkamannaflokkurinn hafi í orði oft verið tilbúinn að breyta kosningakerfinu, sem gengur út á einmenningskjördæmi, en ekki þegar flokkurinn hafi verið kominn í ríkisstjórn. Bæði Verkamannaflokkurinn og Íhaldsflokkurinn hafi ennfremur notað kerfið markvisst til þess að refsa öðrum flokkum sem hafa viljað upp á dekk. Hvað Breska kvennalistann varðar sjái Verkamannaflokkurinn hann fremur sem ógn og telji hann vera að þvælast inn á þeirra svæði. „Verkamannaflokkurinn telur sig svolítið eiga kvenréttinda- og jafnréttismál.“

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Hins vegar hafi þeim málum alls ekki verið sinnt nógu vel af þeim stjórnmálaflokkum sem fyrir væru. Til að mynda hafi málaflokkurinn verið sama og horfinn í þingkosningunum 2015 sem hafi verið tilefni að stofnun Breska kvennalistans. Markmiðið sé að fá fulltrúa kjörna á breska þingið en ekki síður einfaldlega að vekja athygli á þessum málum. „Við fórum til dæmis með stefnuskrána okkar á skrifstofu hinna flokkanna og hvöttum þá til þess að stela stefnumálunum okkar. En þeir hafa eins og áður ekki lagt mikla áherslu á þessi mál.“

Róttækni og alþýðleiki Corbyn að skila sér

Halla segir, aðspurð hvað hafi leitt til aukins fylgis Verkamannaflokksins að hennar mati, að fyrir utan stefnumál flokksins þá hafi mörgum hugsanlega þótt hressandi að fá smá róttækar áherslur úr þeirri áttinni. Kosningastefna Verkamannaflokksins fyrir kosningarnar 2015 hafi til samanburðar verið ofboðslega leiðinleg þar sem byrjað hafi verið að fjalla um það með hvaða hætti ætti að fjármagna einstök stefnumál. „Þetta er eitthvað sem á að setja bara aftast í stefnuskrár. En þetta var sett fram sem það mest spennandi í stefnu flokksins þá.“

Corbyn væri ennfremur góður í kosningabaráttum. „Eftir kappræður þá gengur hann út og spjallar við fólk. Hann á rosalega gott með persónulegt samband við fólk. Hann er mjög alþýðlegur og ég held að það sé að vinna með honum. Ég held að það henti stjórnmálamönnum betur í dag.“ May hafi hins vegar á sama tíma virkað köld á kjósendur. Fáir kjósendur virðist fyrir vikið vera sérlega heitir í stuðningi sínum við hana.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert