Lengstu jarðgöng heims samþykkt í Noregi

Hér má sjá staðsetningu ganganna en þau munu fara undir …
Hér má sjá staðsetningu ganganna en þau munu fara undir Boknafjord í Rogalandi. Einnig má sjá samanburð á þeim og Hvalfjarðagöngum. Kort/mbl.is

Norska stórþingið samþykkti 23. maí áætlanir um gerð 26,7 kílómetra jarðganga undir sjó sem nefnd hafa verið Rogfast. Göngin verða lengstu og dýpstu jarðgöng undir sjó í heiminum. Verkefnið, sem mun kosta 200 milljarða íslenskra króna mun stytta ferðatíma milli Stavanger og Bergen um 40 mínútur.

Rogfast-göngin munu fara undir Boknafjord í Rogalandi. Verkefnið nær til sveitarfélaganna Randaberg, Kvitsøy og Bokn í Rogalandi. Með þeim verður til 400.000 manna atvinnuþróunarsvæði innan klukkustunda fjarlægðar í akstri frá Stavanger. Það mun ýta undir framþróun byggðar og styrkja vinnumarkaði á svæðinu.

Í kynningu norsku vegagerðarinnar á verkefninu segir Ketil Solvik-Olsen, samgönguráðherra Norðmanna að verkefnið muni styrkja atvinnulíf og færa íbúa betur saman í Vestur-Noregi. Jafnframt segir hann göngin vera fyrsta áfanga metnaðarfulls verkefnis að hafa samgöngur án ferja á milli Kristjánssands og Þrándheims.

Hluti af mun stærra verkefni: E39

Göngin eru fyrsti hluti af risavöxnu samgönguverkefni um endurbætur á E39 þjóðveginum og nær alla leið frá Kristjánssandi í suður hluta Noregs upp vestur ströndina allt norður til Þrándheims.

Rogfast-verkefnið hefur verið lengi í undirbúningi. Hugmyndin kom fyrst fram um miðjan áttunda áratug síðustu aldar. Skipulagsáætlun var síðan samþykkt af umhverfisráðuneytinu árið 2004. Svæðisskipulag aðliggjandi sveitarfélaga var síðan endanlega samþykkt árið 2011.

Í núverandi samgönguáætlun Noregs fyrir árin 2018-2029 er gert ráð fyrir að verkið hefjist í ár og ljúki árið 2025 eða árið 2026. Norska stórþingið samþykkti síðan tillögur ríkisstjórnarinnar 23. maí að verkefnið skyldi hefjast á þessu ári.

Norska vegagerðin fagnaði samþykkt ganganna með tertu.
Norska vegagerðin fagnaði samþykkt ganganna með tertu. mynd/norska vegagerðin

200 milljarðar íslenskra króna

Áætlaður kostnaður er um 16.8 milljarðar norskra króna eða um 200 milljarðar íslenskra króna. Hlutur ríkisins í fjármögnun hefur aukist verulega frá upprunalega áætlunum frá u.þ.b. 2,5 milljörðum norskra króna, í 5,1 milljarða. Að auki gerir ríkið ráð fyrir að leggja til 1,6 milljarða norskra króna ef verkefnið reynist dýrara til að halda vegtollum innan áætlana.

Ráðgert er að leggja á vegagjald í 20 ár og að vegtollur verði 374 norskar krónur hver ferð eða um 4.466 íslenskar króna. Hafi menn veglykil með afsláttarkorti er kostnaðurinn 288 norskar krónur hver ferð eða 3.440 íslenskar króna.

Áætlað er að Rogfast-göngin verði tvöföld neðanjarðar, hámarks dýpt þeirra verði 390 metrar og þau verði með 7% veghalla. Hönnunin miðar við 100 km/klst hámarkshraða. 

Sjón er sögu ríkari:



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert