Reyndi að hindra framgang réttvísinnar

Trump neitar að hafa krafið Comey um hollustu.
Trump neitar að hafa krafið Comey um hollustu. AFP

Lögspekingar vestanhafs virðast margir hverjir sammála að vitnisburður James Comey, fyrrverandi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI, um samskipti hans við Donald Trump Bandaríkjaforseta bendi sterklega til þess að Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar. 

Það hafi hann gert með tilraun sinni til að fá Comey til að falla frá rannsókn á tengslum Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa við ráðamenn í Rússlandi. Þetta kemur fram á vef Guardian.

Comey kemur fyrir rannsóknarnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings klukkan 14 í dag vegna málsins, en vitnisburði hans var lekið á netið í gær. Á fundinum í dag mun Comey gera grein fyrir samskiptum sínum við Trump. Samkvæmt því sem fram kemur í vitnisburðinum mun Trump hafa krafist hollustu af hálfu Comey og beðið hann um að falla frá rannsókn á Michael Flynn.

Þrátt fyrir að margt bendi til þess að Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar eru skiptar skoðanir á því hvort vitnisburður Comey dugi til að ákæra eða til sakfellingar. Slík ákæra þyrfti alltaf að fara fyrir fulltrúadeild Bandaríkjaþings, en flestir Repúblikanar á þinginu virðast styðja Trump, þrátt ítarlegan vitnisburð Comey á vafasömum kröfum forsetans.

Sumir álitsgjafa Guardian telja að vitnisburður Comey muni gefa margþættri rannsókn á háttsemi starfsmanna kosningabaráttu Trump byr undir báða vængi. Fleira geti jafnvel komið fram sem Repúblikanar á þinginu gætu átt erfitt með að leiða hjá sér.

Vitnisburður Comey bendir til að Trump hafi ætlað sér að …
Vitnisburður Comey bendir til að Trump hafi ætlað sér að hindra framgang réttvísinnar. AFP

Þá hefur Trump neitað að hafa krafist hollustu af hálfu Comey og ef hann neitar því áfram, eiðsvarinn, gæti hann átt yfir höfði sér ásakanir um að hafa rofið eið sinn, að mati lögspekinga.

„Vel undirbúinn og trúverðugur vitnisburður Comey styrkir trú mína á því að forsetinn hafi ætlað sér að hafa áhrif á yfirstandandi rannsókn á ólöglegum gjörðum Flynn og annarra náinna starfsmanna forsetans, eða jafnvel stöðva hana. Það telst tilraun til að hindra framgang réttvísinnar,“ sagði Laurence Tribe, prófessor í stjórnskipunarrétti við Harvard háskóla í svari við fyrirspurn Guardian.

Richard Painter, sem var siðferðislegur ráðgjafi í ríkisstjórnartíð George W. Bush, vill hins vegar meina að það þurfi frekari sönnunargögn til að saka Trump um að hindra framgang réttvísinnar. „Lykilspurningin er sú hvort Trump hafi hótað Comey uppsögn ef hann gerði ekki eins og honum var sagt,“ segir Painter. „Ég tel það að óska eftir hollustu Comey á sama tíma og hann sagði honum að hætta rannsókn á Flynn, og svo sú staðreynd að hann var rekin, bendi sterklega til að hann hafi ætlað sér að reka hann ef hann hætti ekki rannsókninni. En hvort það er nóg til að sannfæra dómstóla er óvíst. Það færi algjörlega eftir framburði annarra vitna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert