„Við munum aldrei gefast upp“

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hvatti stuðningsmenn sína til dáða í dag og sagðist ætla að berjast gegn andstæðingum sínum. Hann minntist þó ekki beint á vitnisburð James Comey, fyrrverandi forstjóra alríkislögreglunnar FBI.

Comey sat fyrir svörum rann­sókn­ar­nefnd­ar öld­unga­deild­arþings Banda­ríkj­anna í dag vegna sam­skipta sinna við Don­ald Trump en Trump rak Comey úr starfi í byrjun maí.

„Þau munu ekki snúa okkur frá okkar réttláta málstað,“ sagði Trump í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington, í dag.

„Við vitum betur en nokkur annar hvernig á að berjast og munum aldrei gefast upp. Við gefumst ekki upp, við erum sigurvegarar og ætlum að berjast, sigra og framtíðin verður ótrúleg,“ bætti Trump við.

Í vitn­is­b­urði Comey, sem var lekið á netið í gær, kom meðal ann­ars fram að Trump hefði kraf­ist holl­ustu af hans hálfu og beðið hann um að falla frá rann­sókn á tengsl­um Michael Flynn, fyrr­ver­andi þjóðaör­ygg­is­ráðgjafa, við ráðmenn í Rússlandi, í tveggja manna kvöld­verðarboði þann 14. fe­brú­ar síðastliðinn. Comey  þóttu sam­skipt­in óþægi­leg og ákvað að skrifa minn­ispunkta um hvað fór fram á milli hans og for­set­ans.

„Ég get sagt það með fullri vissu að forsetinn er ekki lygari og svona spurningar eru móðgandi,“ sagði Sarah Huckabee Sanders, talsmaður Hvíta hússins.

„Þau munu ljúga, þau munu trufla okkur. Þau eiga eftir að dreifa hatri en við munum ekki snúa frá því sem er rétt,“ sagði Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert