Neita að afhenda gögnin um Trump

Trump hefur þurft að verjast ásökunum um að hann og …
Trump hefur þurft að verjast ásökunum um að hann og Rússar séu í einni sæng. AFP

Deutsche Bank hefur neitað beiðni fjármálanefndar bandaríska þingsins um upplýsingar um Donald Trump Bandaríkjaforseta og fjölskyldu hans. Bankinn segir að það væri brot á friðhelgi einkalífs og birti formlegt svar á vefsíðu sinni. 

Nefndarmenn úr Demókrataflokknum sendu bankanum beiðni um gögn sem þeir telja að varpi ljósi á það hvort stjórnvöld í Rússlandi hefðu ábyrgst lán bankans til forsetans, eða hvor einhver tenging væri þar á milli yfir höfuð. 

„Samkvæmt alríkislögum þarf stofnun eins og Deutsche Bank að varðveita trúnaðarupplýsingar um viðskiptavini sína,“ segir í svari bankans. „Það gildir hvort sem viðkomandi er ríkisstarfsmaður eða heimsþekktur, og jafnvel í kringumstæðum þar sem hann hefur sjálfur upplýst um viðskipti við bankann að hluta til.“

Beiðnin er hluti af rannsókn á tengslum Trumps við stjórnvöld í Rússlandi. Rannsakað er hvort samráð hafi verið þeirra á milli í kosningaherferðinni á síðasta ári og hvort íhlutun Rússa hefði haft marktæk áhrif á úrslit þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert