Krefja Hvíta húsið um upptökurnar

Þingmenn úr röðum repúblikana og demókrata vilja fá upptökurnar fram …
Þingmenn úr röðum repúblikana og demókrata vilja fá upptökurnar fram í dagsljósið. AFP

Þingmenn úr röðum bæði demókrata og repúblikana hafa óskað eftir því að Hvíta húsið að geri opinberar upptökur af einkasamtölum Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og James Comey, fyrrverandi forstjóra alríkislögreglunnar FBI, ef einhverjar eru. Jafnvel er talað um stefnu í því samhengi. Guardian greinir frá.

Comey kom fyrir rannsóknarnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í síðustu viku og lýsti samskiptum sínum við Trump í aðdraganda þess að hinn síðarnefndi rak þann fyrrnefnda úr starfi 9. maí.

Trump hefur tíst um að það sé eins gott fyrir Comey að upptökur af samtölum þeirra verði ekki gerðar opinberar. Comey sagði hins vegar sjálfur, þegar hann kom fyrir nefndina, að hann vonaðist til að það væru til upptökur af samtölunum og að þær yrðu gerðar opinberar.

Þingmaður repúblikana, Susan Collins, sagði í samtali við CNN að hún myndi styðja það að stefna Hvíta húsinu til að afhenda upptökurnar, en að hún vonaðist til að forsetinn myndi gera það sjálfviljugur.

Demókratinn Dianne Feinstein hefur einnig þrýst á að fá upptökurnar fram í dagsljósið. „Það eru engin vitni af þessum samtölum. Ef það eru til upptökur, vinsamlegast afhendið þær. Sérstaklega af því að það er orð á móti orði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert