Hundur fann ungbarn í plastpoka

Orejón er álitinn hetja í Argentínu eftir að hann lét …
Orejón er álitinn hetja í Argentínu eftir að hann lét vita af ungbarni í plastpoka úti á götu.

Ungbarn, sem hafði verið sett í plastpoka og yfirgefið úti á götu, á líf sitt hundi nokkrum að launa. 

Hundurinn Orejón býr í argentínsku borginni Vincent Lopez ásamt eiganda sínum. Borgarbúar þekkja hann margir hverjir vel og þegar einn þeirra sá hann gelta við plastpoka vissi hann að ekki væri allt með felldu. Nágranni sem var að koma að húsi sínu tók eftir því að Orejón hagaði sér ekki eins og hann var vanur.

„Ég sá að Orejón var órólegur,“ segir maðurinn í samtali við dagblaðið Clarín. „Hann var að þefa og gelta að plastpokanum.“

Maðurinn komst fljótt að því hvað bjátaði á. Í plastpokanum var sofandi ungbarn. Hann telur að barnið hafi verið skilið þarna eftir viljandi. 

Kalt var úti á götum borgarinnar þetta kvöld. Talið er að Orejón hafi bjargað lífi barnsins. Lögregla og sjúkralið var kallað á vettvang og var barnið, sem talið er aðeins nokkurra vikna gamalt, flutt á sjúkrahús til aðhlynningar. 

Atvikið átti sér stað í síðustu viku. Enn hefur ekki verið upplýst hver skildi litla barnið eftir á götunni.

The Dodo segir frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert