Rekin vegna ritskoðunar á Trump-bol

Grant Berardo skartaði Trump bol í myndatöku fyrir árbókina. Áletrunin …
Grant Berardo skartaði Trump bol í myndatöku fyrir árbókina. Áletrunin á bolnum hafði verið þurrkuð út í sjálfri bókinni. Skjáskot af Twitter

Kennari í bandarískum menntaskóla hefur verið rekinn eftir að hann breytti myndum fyrir árbók skólans þannig að ekki sæist í slagorð Donald Trump, Bandaríkjaforseta, á klæðnaði nemanda. 

Susan Parsons, var tækni- og fjölmiðlakennari í Wall Township menntaskólanum í New Jersey. Henni hefur nú verið vikið úr starfi. 

Sagt er frá þessu á vef Buisness Insider. 

Foreldrar og nemendur kvörtuðu yfir ritskoðuðu myndunum þegar að árbókin kom út í síðustu viku. Einn nemandi, Grand Berardo, hafði verið í bol á mynd þar sem á stendur nafn forsetans og slagorð hans „Make America Great Again“ eða „Gerum Ameríku frábæra aftur“ en í árbókinni sjálfri virðist sem Berardo sé aðeins í dökkbláum stuttermabol. Sama slagorð vantaði á vesti nemandans Wyatt Dobrovich-Fago.

Þá var búið að taka út tilvitnun í forsetann undir mynd af fyrsta árs nemendaformanninum Montana Dobrovich-Fago sem er einmitt systir Wyatt.

Skólastjórinn Cheryl Dyer skrifaði bréf til foreldra nemenda skólans á föstudaginn þar sem hún sagðist vera að „rannsaka ásakanir um ritskoðun og möguleg brot á fyrstu grein stjórnarskrárinnar í árbókinni í ár“ en fyrsta greinin snýr að tjáningarfrelsi.

Sagði hún jafnframt ekkert í reglum skólans sem myndi hindra nemanda í að tjá sína pólitísku skoðanir. „Ég fagna því frekar að nemendur hafi skoðun og taki þátt í lýðræðislegu samfélagi,“ skrifaði Dyer.

Foreldrar nemendanna hafa nú krafist þess að gefnar verið út nýjar árbækur með upprunalegu myndunum og tilvitnuninni.

„Hér er komið tækifæri til kennslu fyrir nemendurna og kennarana,“ sagði faðir Grant, Joseph Berardo. „Þetta er fyrsta grein stjórnarskrárinnar, snýr að tjáningarfrelsi.“

Grant sagði í samtali við NJ Advance Media að honum fyndist ritskoðunin „frekar heimskuleg“. „Ég meina, hann er forsetinn okkar. Hann er forseti Bandaríkjanna. Hvernig er það særandi?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert