Rekur Trump Rússlands-ráðgjafann?

Robert Mueller.
Robert Mueller. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur til skoðunar að reka Robert Mueller, fyrrverandi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI, úr embætti sérstaks ráðgjafa vegna rannsóknar á mögulegum afskiptum rússneskra stjórnvalda af forsetakosningunum í Bandaríkjunum á síðasta ári. Þetta kemur fram í frétt AFP.

Fram kemur í fréttinni að Christopher Ruddy, forstjóri fjölmiðlafyrirtækisins Newsmax Media, lét ummælin falla í tengslum við framburð Jeffs Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, á fundi nefndar á vegum Öldungadeildar Bandaríkjaþings sem rannsakar möguleg tengsl kosningaherferðar Trumps við Rússland.

Fyrr í þssum mánuði rak Trump James Comey úr embætti forstjóra FBI en talið er að ástæða sé sú að Comey hafi ekki viljað hætta rannsókn alríkislögreglunnar á málinu. Ruddy, sem er góður vinur Trumps, sagði í samtali við bandarísku sjónvarpsstöðina PBS að forsetinn væri hugsanlega að íhuga að losa sig við Mueller.

„Ég held að hann sé að skoða þann möguleika,“ sagði Ruddy. Bætti hann við að hann teldi sjálfur að það væru mikil mistök. Talsmaður Hvíta hússins sagði Ruddy aðeins tala fyrir sjálfan sig en ekki forsetaskrifstofuna. Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN hefur eftir heimildarmanni í innsta hring Trumps að margir ráðlegðu honum að reka Mueller ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert