Segir ESB ekki geta beitt refsiaðgerðum

Witold Waszczykowski, utanríkisráðherra Póllands er ekki hrifinn af flóttamannaáætlun Evrópusambandsins.
Witold Waszczykowski, utanríkisráðherra Póllands er ekki hrifinn af flóttamannaáætlun Evrópusambandsins. Mynd/AFP

Utanríkisráðherra Póllands segir að mögulegar refsiaðgerðir Evrópusambandsins gegn Póllandi fyrir að taka við færri flóttamönnum en krafist er séu ólöglegar. Búist er við að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynni á morgun hvaða úrræðum verði beitt. 

Á mánudaginn var fréttastofu AFP greint frá því að Evrópusambandsþjóðirnar Pólland, Ungverjaland og Tékkland horfðu fram á refsiaðgerðir fyrir að neita að taka þátt í að flóttamannaáætlun sem léttir þungann á Ítalíu og Grikkandi. 

„Við erum ekki í hættu,“ segir Witold Waszczykowski, utanríkiráðherra Póllands. „Við ætlum ekki að bregðast við, við ætlum ekki að útskýra fyrir framkvæmdastjórninni hvers vegna þetta er ólöglegt.“

„Megnið af fólkinu er ekki flóttamenn. Þetta er farandfólk sem kom ólöglega til Evrópu og vill ekki setjast að í Póllandi, það þyrfti að beita þvingunum,“ bætti Waszczykowski við. 

Yfirvöld í Póllandi hafa boðist til að senda mannúðaraðstoð til flóttamannabúða á stríðshrjáðum svæðum í Miðausturlöndum en Evrópusambandið mun hafa krafist þess að landið byrji að taka við hælisleitendum frá Sýrlandi, Erítreu og Írak. Í byrjun júní var aðeins búið að finna 20 þúsund flóttamönnum stað af þeim 160 þúsund sem hafa að undaförnu komist yfir landamærin álfunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert