Sökuð um að stunda ólögleg viðskipti með börn

Ástralski hjúkrunarfræðingurinn Tammy Davis-Charles var flutt úr fangaklefa í réttarsalinn …
Ástralski hjúkrunarfræðingurinn Tammy Davis-Charles var flutt úr fangaklefa í réttarsalinn í dag. Réttarhöldin fara fram í Phnom Penh í Kambódíu. AFP

Ástralskur hjúkrunarfræðingur neitaði því að reka ólöglega þjónustu með staðgöngumæðrun í Kambódíu er réttarhöld í málinu hófust í dag. Um er að ræða fyrsta málið af þessum toga eftir að yfirvöld í Kambódíu bönnuðu útlendingum að nýta sér staðgöngumæðrun þar í landi.

Hjúkrunarfræðingurinn Tammy Davis-Charles var handtekin ásamt tveimur Kambódíumönnum í nóvember. Hún er sökuð um að finna kambódískar staðgöngumæður fyrir pör frá öðrum löndum. 

Handtakan var gerð tveimur vikum eftir að staðgöngumæðrun var bönnuð í Kambódíu þar sem slíkt var talið ýta undir misnotkun á fátækum konum. Sambærilegt bann hefur verið lagt við staðgöngumæðrun í Taílandi og víðar.

Þremenningarnir sem voru handteknir voru einnig ákærðir fyrir að falsa skilríki, m.a. fæðingarvottorð fyrir ungbörnin.

Við réttarhöldin í dag neitaði Davis-Charles sök og sagðist ekki hafa átt neinn þátt í starfseminni. Hún sagði sitt hlutverk hafa verið að veita 23 staðgöngumæðrum læknisaðstoð en konurnar báru börn fyrir átján áströlsk pör og fimm bandarísk. Hún sagðist ekki hafa haft neina milligöngu milli staðgöngumæðranna og paranna. Fólkið hafi sjálft séð um að koma slíkum tengslum á. 

Davis-Charles segist hafa fengið 8.000 dollara greiðslu, rúmlega 800 þúsund krónur, frá hverju pari. Hún segir staðgöngumæðurnar fá greitt í kringum eina milljón króna fyrir að ganga með hvert barn.

Öll börnin fæddust í Kambódíu en höfðu verið flutt þaðan er hjúkrunarfræðingurinn var handtekinn. 

Davis-Charles segist áður hafa starfað við að sinna staðgöngumæðrum í Taílandi. Eftir að yfirvöld þar í landi bönnuðu slíkt hafi hún flutt til Kambódíu.

Saknar ekki barnsins

Tvær staðgöngumæður voru leiddar fyrir réttinn sem vitni í dag. Þær segja að Davis-Charles hafi verið sú sem greiddi þeim fyrir þjónustu þeirra. Önnur þeirra sagðist hafa fætt stúlkubarn sem hafi verið tekið frá henni og fært í hendur útlensks pars. 

„Ég sá ekki framan í barnið, ég ég veit að faðir hennar tók hana,“ rifjaði hún upp. Hún sagðist ekki sakna barnsins þar sem hún hafi vitað frá upphafi að það var ekki hennar. 

Staðgöngumæðrun viðgekkst lengi í Taílandi nánast án laga og reglna. En árið 2014, í kjölfar margra álitamála, ákváðu þarlend stjórnvöld að banna útlendingum að nýta sér staðgöngumæður í landinu.

Frá því að slíkt bann var sett á í Taílandi, Kambódíu, Nepal og á Indlandi er Laos orðið miðstöð slíkrar starfsemi í Asíu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert