Bruninn í London í hnotskurn

Staðfest hefur verið að í það minnsta sex eru látnir eftir að gríðarlegur eldsvoði braust út í 24 hæða fjölbýlishúsi, Grenfell-turninum, í vesturhluta Lundúna í nótt. Óttast er að fleiri hafi týnt lífi.

Mbl.is tók saman atburðarásina í hnotskurn:

Eldurinn kom upp rétt fyrir kl. 1 í nótt að staðartíma, miðnættis að íslenskum tíma. Turninn er að minnsta kosti 24 hæðir og í honum voru 120 íbúðir.

Meira en 200 slökkviliðsmenn hafa barist við eldinn í nótt og í morgun. Fjörutíu slökkviliðsbílar eru á vettvangi. Enn logar í húsinu.

Sjúkralið var hvatt á vettvang kl. 1.29 í nótt að staðartíma, 00.29 að íslenskum tíma. 

Slökkvilið hefur staðfest að fjöldi manns hafi látist og Guardian segir að í það minnsta sex hafi týnd lífi. Margra er enn saknað.

Meira en fimmtíu voru fluttir slasaðir á sjúkrahús í nótt og morgun.

Slökkviliðið segist hafa verið komið á staðinn sex mínútum eftir að neyðarsímtal barst um eldsvoðann.

Íbúar segja að í neyð hafi þeim verið sagt að halda kyrru fyrir og setja blaut handklæði við dyr og glugga. 

Sést hefur til fólks henda sér út úr húsinu. Þá eru einnig dæmi um að fólk hafi hent börnum sínum út um glugga til að reyna að bjarga þeim. 

Götum í nágrenni hússins hefur verið lokað og miklar umferðartafir eru víða í vesturhluta Lundúna.

Slökkviliðið segir að eldsvoðinn sé fordæmalaus og að í augnablikinu sé enn ekki vitað hver eldsupptök voru.

Samkvæmt því sem íbúar og sjónarvottar segja voru upptökin á fjórðu hæð hússins. Eldurinn breiddist svo hratt út í fleiri íbúðir og var húsið alelda um tíma.

Sprengingar hafa heyrst, rúður hafa brotnað vegna hitans og sprungur myndast í veggjum hússins. Logandi brak fellur niður af byggingunni.

Íbúasamtök, Grenfell-aðgerðarhópurinn, höfðu ítrekað varað við hættu á eldsvoða í turninum. Þau segja að litlu hafi mátt muna að mikill eldur brytist út árið 2013 er rafmagn fór af. Samtökin segja að ekkert hafi verið hlustað á ábendingar þeirra.

Borgarstjóri Lundúna, Sadiq Khan, segir að eldsvoðinn sé stórslys.

Grenfell-turninn var byggður árið 1974. Hann var nýverið gerður upp.

Greinin er byggð á fréttum Guardian, BBC og Sky.

mbl
Grenfell-turninn varð alelda á augabragði í nótt.
Grenfell-turninn varð alelda á augabragði í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert