„Hér er aðeins kærleika að finna“

Lundúnabúar hafa þyrpst á vettvang til að bjóða fram aðstoð …
Lundúnabúar hafa þyrpst á vettvang til að bjóða fram aðstoð sína. AFP

Stuttu eftir að eldur braust út í Grenfell-turninum í Vestur-London hóf almenna borgara að streyma að og bjóða fram aðstoð sína. Allir vildu gera það sem í þeirra valdi stæði til að hjálpa til. 

Sumir komu með vatn og mat, aðrir með teppi. Enn aðrir buðu hröktum íbúum fjölbýlishússins húsaskjól eða buðust til að keyra þá til ástvina. 

Eldurinn kviknaði á meðan flestir íbúar hússins voru í fastasvefni. Því höfðu margir þeirra ekki ráðrúm til að klæða sig eldur stóðu á nærfötunum einum saman eða náttfötum þegar út var komið.

Þá kom aðstoð borgaranna sér vel því margir höfðu komið með föt og yfirhafnir á vettvang.

Margir hafa komið með föt og mat á vettvang fyrir …
Margir hafa komið með föt og mat á vettvang fyrir íbúana sem nú eru orðnir heimilislausir. AFP

„Hér er aðeins kærleika að finna,“ segir Paul Kipulu, einn þeirra sem kom á vettvang til að rétta fram hjálparhönd. Þriggja ára sonur hans var með honum skammt frá Grenfell-turninum í dag og vildi líka leggja hönd á plóg. Kipulu segir að vinar síns sem bjó í blokkinni sé saknað. Hann veit ekki hvort hann er á lífi. Á meðan hann fær fregnir af honum ætlar hann að hjálpa öðrum. 

Hópfjarmögnun hófst strax fyrir fórnarlömbin og hafa breskir fjölmiðlar verið duglegir við að benda á að sumar líkar safnanir eru falsaðar í þeim tilgangi að hafa fé af fólki. 

Lögreglan hefur staðfest að sex hafi látist og varar við því að sú tala eigi eftir að hækka. Rúmlega 70 voru fluttir á sjúkrahús og eru um tuttugu í lífshættu og ennþá er ein­hverra saknað. Slökkvilið er enn að störf­um á svæðinu þar sem gert er ráð fyr­ir að aðgerðir muni taka talsverðan tíma til viðbót­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert