Tólf hafa látið lífið í eldsvoðanum

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá sjúkraflutningaþjónustunni í London er fjöldi þeirra sem eru alvarlega slasaðir kominn niður í 18, en þeir voru áður sagðir 20. Sadiq Khan, borgarstjóri í London, óttast að tala látinna fari hækkandi en þegar hafa 12 manns látið lífið í eldsvoðanum. Khan fer fram á að eldsvoðinn verði rannsakaður gaumgæfilega og undir það tekur slökkviliðsstjóri.

Yfirmaður sjúkraflutningaþjónustunnar í London staðfestir að hún hafi annast 64 einstaklinga sem slasast hafi í eldsvoðanum en tíu til viðbótar eru sagðir hafa leitað beint á sjúkrahús. Þá segist slökkviliðsstjóri aldrei á sínum ferli hafa séð nokkuð þessu líkt. Viðbragðsaðilar eru enn á vettvangi og aðgerðirnar sagðar einhverjar þær umfangsmestu sem sjúkraflutningamenn þar í borg hafa fengist við. Gert er ráð fyr­ir að aðgerðir slökkviliðs muni taka tals­vert lang­an tíma til viðbót­ar.

Þá mun Nick Hurd, ráðherra lög­reglu- og eld­varn­ar­mála, stýra fundi með full­trú­um allra stjórn­mála­flokka í dag þar sem rætt verður hvernig yf­ir­völd í Bretlandi geta aðstoðað viðbragðsaðila og staðbund­in yf­ir­völd til að bregðast við elds­voðanum. Hefst sá fundur innan skamms. Þá ligg­ur enn ekki end­an­lega fyr­ir hvað olli elds­voðanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert