Flúði Sýrland og lést í brunanum

Margra er enn saknað eftir eldsvoðann mikla. Fólk dreifir miðum …
Margra er enn saknað eftir eldsvoðann mikla. Fólk dreifir miðum þar sem auglýst er eftir týndu fólki. AFP

Greint hefur verið frá nafni eins manns sem lést í stórbrunanum í London. Sá hét Mohammed Alhajali og var flóttamaður frá Sýrlandi. Hann var verkfræðingur að mennt og er lýst sem góðhjörtuðum og gefandi fjölskyldumanni.

Fréttastofa Sky greindi frá þessu í dag.

Staðfest er að sautján létust í eldsvoðanum í Grenfell-turninum í Vestur-London. Fleiri eru látnir en ekki er ljóst hversu margir bjuggu í húsinu og hversu margra er saknað.

Einn íbúi fjölbýlishússins segist ekki vita hvar tíu nágrannar sínir og vinir séu niðurkomnir. „Ég heyrði fólk öskra í húsinu,“ segir Ish Murray við Sky. „Ég fór út úr íbúðinni og sá að eldur var kominn upp, þetta virtist ekki stórt svo ég fór aftur inn til mín. Um hálftíma seinna fór ég aftur út og þá var eldurinn orðinn mikill. Þegar ég fór út úr blokkinni sá ég að hún var rauðglóandi, allar hliðar hennar voru baðaðar eldi. Fólk var að veifa ljósum í gluggunum.“

Mohamednur Tuccu, sem bjó á 19. hæð hússins, er saknað. Hann er 44 ára öryggisvörður. Hann kom heim úr vinnu um kvöldið til að snæða kvöldmat eftir sólarlag með konu sinni en þau eru bæði múslimar og föstumánuður þeirra stendur nú yfir. Þau eiga þriggja ára dóttur. 

Tuccu sendi frænda sínum skilaboð um kvöldið en ekkert hefur heyrst frá honum síðan. 

Konur faðmast skammt frá Grenfell-turninum á svæði sem helgað hefur …
Konur faðmast skammt frá Grenfell-turninum á svæði sem helgað hefur verið minningu þeirra sem létust. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert