Komu auga á örsmáa „hönd“

Dawson og Nelson munu alast upp saman.
Dawson og Nelson munu alast upp saman. Af Facebook

Ökumaður bíls, sem ók á kengúru á vegi í Ástralíu, flúði af vettvangi. Er vegfarendur komu að var dýrið nær dauða en lífi. Hringt var eftir aðstoð og kom Melanie Fraser, starfsmaður dýraverndunarsamtakanna Macedon Ranges Wildlife Network, fljótt á vettvang. En ekki var hægt að bjarga lífi dýrsins sem drapst í vegkantinum. 

Björgunarleiðangurinn var þó ekki gagnslaus því er Fraser leit ofan í poka kengúrunnar fann hún örsmáan, bleikan kengúruunga þar. Sá var enn á lífi og hlaut nafnið Dawson.

Litla krílið hafði sjálft reynt að skríða út úr poka móður sinnar og hreyfði litla framfæturna, sem eru svo stuttir að þeir minna oft á hendur manna. Fraser segir í samtali við The Dodo að unginn hefði ekki lifað mikið lengur, honum hafi verið komið til bjargar á hárréttu augnabliki.

Dawson litli er líklega nokkurra mánaða gamall. Hann er nú um sjá fólks sem sérhæfir sig í að sinna villtum, slösuðum dýrum. Þar er honum gefið að éta, hann þrifinn og haldið á honum hita. Svo vill til að hann eyðir nú stundum sínum með öðrum munaðarlausum kengúruunga sem fengið hefur nafnið Nelson.

Þeir munu alast upp saman og svo stendur til að setja þá samtímis aftur út í hina villtu náttúru Ástralíu þegar fram líða stundir.

Nokkur bið verður á því þar sem kengúruungar verða að vera orðnir um tveggja ára gamlir til að lifa sjálfstæðu lífi í náttúrunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert