Fangelsisvist stytt um fimm daga

Alexei Navalny mætir til dómsuppkvaðningar í dag.
Alexei Navalny mætir til dómsuppkvaðningar í dag. AFP

30 daga fangelsisdómur yfir rúss­neska stjórn­ar­and­stæðing­num Al­ex­ei Navalny hefur verið styttur um fimm daga. Búist er við að hann verði látinn laus 7. júlí. Hann var handtekinn á heimili sínu og dæmdur til fangavistar eft­ir að mót­mæli, sem ekki hafði verið gefið leyfi fyr­ir, fóru fram víðs veg­ar um Rúss­land í vikubyrjun.

Talsmaður hans, Kira Yarmysh, greindi frá þessu í Twitter-færslu.

Rúss­nesk yf­ir­völd hand­tóku hinn 41 árs Navalny ásamt rúm­lega 1.500 af stuðnings­mönn­um hans. Flest­ar hand­tök­urn­ar fóru fram í Moskvu. Hins vegar ber fréttamiðlum ekki saman um fjölda þeirra sem voru handteknir og talan 1.700 hefur einnig verið nefnd. Sumum þeirra var sleppt án frekari eftirmála en í Pétursborg hafa að minnsta kosti 50 manns verið gert að sitja í fangelsi í 10 daga.    

Einnig ber miðlum ekki saman um hvort leyfi hafi verið gefin fyrir umræddum mótmælum. AFP-fréttaveitan segir að leyfi hafi verið gefið fyrir mótmælunum í sumum borgum en öðrum ekki. 

Navalny segir að borgaryfirvöld í Moskvu hafi komið í veg fyrir að hann og stuðningsmenn sínir gætu leigt svið og hljóðbúnað til að setja upp í Moskvu. Borgaryfirvöld hafi fyrirskipað að mótmælin gætu farið fram annars staðar en í höfuðborginni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert